Dóttir mín sefur í einföldu IKEA rimlarúmi. Lime grænu og krúttlegu. Hugmyndir fyrir heimilið er síða sem ég skoða reglulega enda leynast margar ljómandi góðar hugmyndir þar. Ein af þeim er einmitt “prentun” á húsgögn. 
Það eina sem til þarf er: prentari, “Mod Podge” og húsgagn sem þráir upplyftingu. Yfirleitt er talið betra að nota bleksprautuprentara en ekki laser prentara. Það var þó allur gangur á því þegar ég var að lesa mér til um þetta á netinu. Ég er með bleksprautu (inkjet) prentara og hann virkaði ljómandi vel.
Þessa dagana er ég voða skotin í texta á veggjum og húsgögnum enda varð það fyrir valinu. Sofðu rótt í alla nótt skyldi prentað á rúmið góða (og já, ég vonaði að elskuleg dóttirin myndi hætta að vakna á nóttunni í leiðinni … bjartsýna ég!)
Ég notaði “InDesign” forritið til að skrifa textann og spegla hann. Eflaust er hægt að nota mörg önnur forrit til að gera það. Ég þurfti að prenta út nokkur blöð með mismunandi leturstærð til að finna út hvað passaði á rúmið.
Þegar það var klárt klippti ég textann út, makaði Mod Podge á bleðilinn og smellti honum á rúmið. Lét þetta síðan þorna yfir nótt (það mæla allir netverjar með því).
Til að ná pappírnum í burtu þarf að bleyta hann og nudda varlega af. Eftir stendur svo blekið. Ég gerði nokkrar tilraunir á öðrum hlutum hérna heima áður en ég óð í rúmið og klikkaði iðulega á að bleyta pappírinn of mikið. Mod podge er “water-based” og þolir því ekki endalaust vatn. Það er því auðvelt að nudda textann (prentið) af ef maður fer ekki varlega. Þegar þið byrjið að nudda af rakann pappírinn sjáiði að hann er í nokkrum lögum og það gekk best ef ég náði einu lagi í einu.. Eins er gott að láta pappírinn þorna á milli til að sjá betur hvort eitthvað sé eftir af honum (hann verður hálf ósýnilegur þegar hann blotnar og þynnist). 
Í lokin þegar textinn (prentið) stendur eitt eftir þarf að lakka aftur yfir. Ég notaði töfraefnið Mod Podge en öll lökk ættu að virka alveg jafn vel eða betur. 
Stiklað á stóru:
1. Mynd/texti prentaður á venjulegt blað.
2. Límt á húsgagn með Mod Podge.
3. Látið þorna yfir nótt.
4. Pappírinn vættur og nuddaður af með puttunum.
Viðauki …
Ég pússaði ekki undirlagið en er nokkuð vissum að það sé betra. – Matta undirlagið aðeins ef það er ekki hrátt.
Mod Podge er undraefni frá Ameríkunni og er til í alls kyns afbrigðum og er notað til að líma og lakka, allt með sama efninu!
Mod Podge fæst m.a. í Litir & föndur.
Það er hægt að nota pensil/svamp/tusku til að bera það á, bara skola strax á eftir.
Litaprent virkar alveg jafn vel og svart/hvítt.
Ódýri ljósritunarpappírinn er bestur í verkið.
Dóttirin hætti ekki að vakna þrátt fyrir textann.