Fljótlegar og einfaldar gulrótarmuffinskökur

Tilbúnar gúlrótarmöffinsÁ heimili mitt kemur reglulega ungur drengur sem er alveg óskaplega matvandur. Fyrir tilraunakokk eins og mig er fátt leiðinlegra en að heyra, ,,ég borða ekki svona“ eða ,,mér finnst þetta vont“ áður en einn einast munnbiti hefur náð að kitla bragðlauka unga mannsins. Sami drengur er athafnasamur og orkumikill og ef dagurinn á ekki að fara í vitleysu er mikilvægt að hugsa um hvað drengurinn er að fá ofan í sig. Næringin skiptir máli, ef hann nærist mest á kolvetnaríku og næringarsnauðu fæði er voðinn vís. Mér fannst ég hafa himinn höndum tekið þegar ég datt niður á þessar gulrótarkökumuffins og við fyrstu tilraun sporðrenndi ungi drengurinn 3 vænum stykkjum. Ég baka þessar með góðri samvisku en hafið í huga að þetta er ekki næringarrík og staðgóð máltíð. Þetta er sætabrauð og ég hef ekki í hyggju að dulbúa það sem neitt annað.

Upphaflega var uppskriftin allt öðruvísi. Ég fann hana á netinu og við fyrsta yfirlit leit út fyrir að ég ætti allt í hana. Þegar á reyndi kom í ljós að ég átti nánast ekki neitt. Þessi uppskrift er því afleiðing þess að þurfa að breyta og bæta, taka úr og hugsa út fyrir rammann á ögurstundu þar sem hungruð börn biðu eftir volgum kökum úr ofninum.

1 bolli hveiti
½ bolli hveitikím
1 tsk matarsódi
1 ½ tsk lyftiduft
1 tsk kanill
¼ tsk malaðar kardimommur
½-1 tsk ferskt rifið engifer
½-1 bolli rifnar gulrætur
1 egg
½ bolli AB mjólk
¼- ½ bolli sykur
Mjólk til að bleyta í deiginu.

Öllu skellt í hrærivélarskálina en eggið og AB mjólkin eru léttþeytt (t.d. með gaffli) í annarri skál og hellt svo útí. Hrært þar til allt er komið saman og svo sett í form og inn í forhitaðan ofn á 180 gráðum.

Fylgstu vel með, muffinskökurnar eru tilbúnar þegar þær hafa risið upp og það er sprungur farnar að myndast efst á þeim. Annars er betra að baka örlítið minna en meira.

 

Úr þessu deigi fékk ég 12 fínar og vænar kökur. Þar sem ég átti ekki von á því að drengurinn myndi fást til að borða þetta ætlaði ég að dulbúa þær með kremi og á helming setti ég hefðbundið gulrótarkökukrem; smá rjómaostur, mikill flórsykur, sletta sítrónusafi. Hann hafði ekki áhuga á kreminu og vildi frekar hafa þær allsberar.

 

 

 


Njótið vel.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.