Tiltekt með börnum á leikskólaaldri

Það er upplagt að byrja snemma að venja börnin við að hjálpa til við heimilisverkin, ekki síst að aðstoða við tiltekt í eigin herbergi. Börnum á aldrinum 2-4 ára finnst gaman að hjálpa til, þau elska að fá að sópa og raða og flokka. Þessa eiginleika má auðvitað nýta til góðs í tiltekt og þjálfa um leið skipulagshæfileika sem nýtast fyrir lífstíð. Það er því eitursnjallt að byrja snemma að kenna börnum tökin við tiltektina og þá er auðvitað nauðsynlegt að velja verkefni við hæfi.

Syngja, dansa og taka til!

Lykilatriði er að skemmta sér við tiltektina. Hví ekki að kveikja á tónlist og syngja og tralla á meðan leikföngin eru týnd upp?

Það er upplagt að leyfa barninu að hafa lítinn, hreinan sóp, til að sópa leikföngum í hrúgur og moka upp.

Lítið barn getur fengið að æfa sig við að munda tuskuna, á meðan foreldrið þurrkar af. Litlum höndum finnst líka gaman að klæðast þvottapoka eða hreinum sokk, og fá að þurrka af þar sem barnið nær til, s.s. lágar hillur, borðfætur og stólfætur.

Það getur gert leikinn skemmtilegri að stilla vekjaraklukku á 5-10 mínútur, og keppast svo við að klára verkefni innan tímamarka.

Sumum krúttpjökkum finnst ekkert meira spennandi en þvottavélar. Því ekki að leyfa barninu að hjálpa til að moka fatahrúgum í þvottavélina, eða aðstoða við að taka úr henni.

Góðir siðir lærast snemma

Það er góður siður að ganga frá áður en farið er í háttinn. Þá getur verið sniðugt að ganga um íbúðina með vagn eða tösku eða lítinn dótakassa, og safna leikföngum sem gætu leynst á víð og dreif um íbúðina. Hver kannast ekki við bangsa sem fela sig á bak við sófa, snuð sem lenda á skrítnustu stöðum og þar fram eftir götunum?

Síðan má ekki gleyma að leyfa hugmyndafluginu að leika lausum taumi. Að fá að setjast ofan á ryksuguna getur verið skemmtilegra en að keyra flottasta kappakstursbíl!

Síðast en ekki síst er mikilvægt að hafa skipulagið í barnaherberginu. Börnum finnst skemmtilegt að flokka hluti og það getur verið prýðisleikur að flokka bíla í einn kassa, bangsa í annan og svo framvegis. Gott skipulag er mikilvægt svo hægt sé að halda herberginu hreinu, og eins og mamma sagði alltaf; „Staður fyrir hvern hlut og hver hlutur á sínum stað“.

Comments are closed.