„Baráttan við fitupúkann og fordómana“

Ég er ein af þessum „mjúku“, „þéttu“, „þybbnu“, „klípilegu“ eða hreinlega feitu konum sem fólk elskar að hata. Ég hef ekki alltaf verið feit, mjúk, þybbin eða klípileg. Ég var ein af gellunum, flott, grönn og skvísuleg og klæddi mig samkvæmt því í kjóla og fínerí. Nú hinsvegar léti ég ekki ná mér dauðri í pilsi eða kjól. Ég klæði mig sjaldan upp enda fjandanum erfiðara að finna á sig flott föt og geri lítið fyrir mig svona fatalega séð því það er fátt jafn niðurdrepandi og að máta alltof lítil föt í alltof litlum mátunarklefum með of skæru ljósi.

Ég var eins og áður segir ekki alltaf í þeirri stærð sem ég er núna, ég var grönn og fit. Ég æfði fótbolta, blak og þolfimi og fór meira að segja út að hlaupa mér til dundurs. Ég gæti í dag varla hlaupið milli tveggja ljósastaura.

„…áður talaði fólk bara „um mig“ í þessum skilningi, …í dag er fólk farið að tala „við mig“.“

Ég fer þó á æfingar og þá sérstaklega upp á síðkastið þar sem takmarkið er að ná af sér óæskilegu þyngdinni og það hefur gengið vel hingað til þó að smá bakslag hafi komið í matarprógrammið síðustu vikur. En það sem ég vildi ræða í þessum pistli er einmitt EKKI átakið sem ég er byrjuð á. Því að þessa dagana virðist það vera það eina sem að fólk hefur áhuga á að ræða við mig.

Allir vilja koma að þeirra kenningum um hvað virkar best og af hverju. Allir vilja koma að æskulegustu æfingunum til fitubrennslu og allir hafa mismunandi kenningar um það sem vænlegast er til árangurs. Á sama tíma og ég er þakklát fyrir alla aðstoðina og ráðleggingarnar finnst mér lífið mitt orðið frekar einhæft og leiðinlegt ef satt skal segja því núna ræðir fólk ekki við mig heimsmálin eða nýja kærastann sinn heldur kílóin mín og ég er satt að segja ekkert svo spennt fyrir svo sjálfhverfu og grunnhyggnu tali endalaust.

Jú vissulega tekur við nýr lífstíll og breytt matarræði og æfingaprógram er skyndilega orðið hluti að mínu lífi en ég snýst um svo miklu miklu meira en bara þetta. Vissulega mætti benda á að áður talaði fólk bara „um mig“ í þessum skilningi, um kílóin og lífstíl minn en í dag er fólk farið að tala „við mig“ um þessa hluti. En staðreyndin er að ég vil ekki láta koma öðruvísi fram við mig þrátt fyrir að vera að reyna að taka mig á, þó vissulega sé ég tilbúin til þess að þiggja hrós endrum og eins.
Ég vildi heldur ekki láta koma öðruvísi fram við mig þegar ég fitnaði en það gerðist nú samt og þá akkúrat á hinn veginn.

„Allt í einu skildi ég af hverju ég hafði fengið alls kyns augnagotur úti á götu.“

Ég er ein af þeim sem byrjaði að fitna hægt og rólega, tók svo flug á meðgöngu og enn hærra flug í fæðingarorlofi og ég sjálf áttaði mig ekki á því sem hafði gerst fyrr en dálitlu seinna þegar ég rak augun í ljósmyndir af mér og fékk sjálf sjokk (enda forðast ég myndavélar af krafti í dag).

Allt í einu skildi ég af hverju ég hafði fengið alls kyns augnagotur úti á götu. Af hverju fólk sem ég hafði ekki hitt lengi þekkti mig varla og hvíslaðist svo á þegar ég labbaði í burtu. Skyndilega áttaði ég mig á breyttum viðhorfum í minn garð. Ég sem hafði verið skvísuleg og skemmtileg var nú orðin úrhrak, letihaugur og sóði samkvæmt skilgreiningu almennings. Fólk sem hafði almennt haft mikinn áhuga á að spjalla við mig leit nú ekki við mér lengur og varla gat heilsað. Ef ég fór í partý með vinkonu eða vini þar sem ég þekkti fáa var undantekningarlaust í mesta lagi heilsað og svo litið undan. Sæta stelpan sem ég kom með var á bólakafi í samræðum og upptekin við að kynnast nýju fólki á meðan ég sat og daðraði við drykkinn minn alein. Ef ég var svo heppin að komast inn í almennar umræður fann ég að minna mark var tekið á mér í umræðunum og margir jafnvel hlustuðu ekki á mig eða jafnvel ranghvolfdu í sér augunum. Því hvað hefði hundlatur sóði svo sem merkilegt til málann að leggja?

„…ég er orðin langþreytt á fordómum í minn garð.“

Gert er ráð fyrir því að feitir séu hundlatir upp til hópa, þeir geri aldrei neitt og nenni aldrei neinu en staðreyndin er að ég er bara hörkudugleg í flestu sem ég tek mér fyrir hendur og ekki margir sem standast mér snúning þegar ég tek mig til. Það er þess vegna sem ég er orðin langþreytt á fordómum í minn garð.
Nú geri ég mér grein fyrir því að allir eða langflestir allavega hafa eitthvað til brunns að bera sem ýtt getur undir fordóma annara hvort sem það er kynhneigð, litarháttur, kyn, fötlun, hárlitur eða þjóðerni. Það verða kannski allir fyrir einhverskonar fordómum og ég því engin undantekning. En þegar manns nánustu sýna af sér fordóma í manns garð og jafnvel bestu vinir er það sárara en tárum taki.

Vinir og kunningjar fara óafvitandi að tala við mann eins og maður sé eitthvað grey sem enga stjórn hefur á sér og maður heyrir iðullega eitthvað á borð við: „hæ mús“ eða „hæ krútt“ því gert er ráð fyrir að maður þurfi stöðuga tilfinningalega uppbót af því að maður er svo feitur og mikið grey. Þegar einhver gefur svo snyrtilega í skyn að maður eigi aldrei von á því að finna sér maka þegar maður er í svona ástandi sekkur hjartað og maður hrekkur í vörn og hendir fram fullyrðingum á borð við: „ég er bara frábær eins og ég er“, „ég er góð manneskja og það mun einhvern finna það í mér í stað þess að skoða kílóin sem ég ber utan á mér“.

„Upplitið sem ég fékk lýsti ekki bara viðbjóði, fyrirlitningu og vorkun heldur vonleysi…“

Manni finnst auðvitað eðlilegt að vera metinn að verðleikum frekar en útliti. En er það raunhæf krafa í samfélagi nútímans? Þegar maður heyrir lítil börn koma með athugasemdir um hversu feitur maður sé og foreldrar barnanna gera ekkert í þeirri ókurteisi sem sýnd er, á maður bágt með að trúa því. Fólki finnst nefnilega allt í lagi að tala illa um feita. Það virðist vera gert ráð fyrir því að feitir séu ekki fólk heldur letingjar og hafi því ekki tilfinningar eins og aðrir. Samkvæmt fyrirfram gefnum hugmyndum um feitt fólk sem koma fram í fjölmiðlum eru þeir síétandi hverja einustu mínútu dagsins eða svangir. Þeir eru oft sýndir með risa gos í annari, pizzu í hinni og snakk á kantinum og ekkert lát virðist á átinu og þær stundir sem ekki fara í át fara í að hugsa um það og því lítill tími í neitt annað eins og vinnu, barnauppeldi, vinina, íþróttir, útivist eða félagsskap í annasömum degi hjá feitum.

Þessi skoðun virðist svo litast inn í allt mannlíf að manni virðist. Fari maður í atvinnuviðtal veit maður fyrirfram að maður á minni séns en „aðlaðandi“ einstaklingur sama hversu hæfur maður virðist í starfið. Fari maður í verslun er starað ofan í körfuna hjá manni og fylgst með því sem dettur þar ofan í. Fari maður á veitingastað er fylgst með disknum hjá manni og hlustað á það sem maður pantar og ef það er ekki samkvæmt nýjustu hollustustöðlum ranghvolfir fólk í sér augunum. Guð forði mér frá því að versla sælgæti, ímyndið ykkur upplitið sem maður fengi þá! Ég þurfti til dæmis um daginn að versla um það bil 10 snakkpoka vegna nefndarstarfa sem ég var hluti af og ég get með sanni sagt að mér hefur sjaldan eða aldrei liðið jafn illa og í biðröðinni við kassann á Bónus þennan dag. Upplitið sem ég fékk lýsti ekki bara viðbjóði, fyrirlitningu og vorkun heldur vonleysi, eins og ég ætti mér einskis uppreisnar von.

„…„þú getur ekki verið hamingjusöm, ég meina hefurðu séð þig“.“

Getur verið að samfélagið sé í raun svona fullt af fordómum? Gæti ég verið að misskilja eitthvað? Auðvitað getur það verið og að mín reynsla og upplifun af fordómum geti verið lituð af mínum eigin tilfinningum og mínu eigin sjálfsöryggi en það útskýrir ekki alla söguna. Satt að segja þá hefur mér ekki liðið neitt sérstaklega illa með sjálfa mig. Ég er ánægð með mig sem persónu. Finnst ég bara falleg kona. Ég er góð manneskja og satt að segja gott eintak þó svo að ég beri auka þunga utan á mér. En ég hef fengið alls konar athugasemdir beint í andlitið og aðrar í gegnum þriðja aðila. Athugasemdir eins og: „hvað maður sé eiginlega búin að gera sjálfri sér“, „hún er svo spikfeit að mig langaði til að gubba“ og síðast en ekki síst „þú getur ekki verið hamingjusöm, ég meina hefurðu séð þig“.

„Er fita sá allra versti löstur sem við getum fundið í fólki?“

Er það í alvöru orðið svo að fitupúkinn sé verri en þjóðfélagspúkinn sem elskar að tala illa um náungann og finna eitthvað slæmt í fari allra til að smjatta á? Er fita sá allra versti löstur sem við getum fundið í fólki? Er ekki kominn tími til að við lítum innra með okkur, skoðum hvaða fordóma leynast innra með okkur og reynum að uppræta þá með fræðslu og þekkingu frekar en illu umtali, sleggjudómum, neikvæðni og sárindum?

Því þegar allt kemur til alls eru þetta ekki geimvísindi og ég geri mér fulla grein fyrir því. Borði maður mat í of háu hlutfalli við hreyfingu fitnar maður. Það þarf engar töfralausnir til eða skyndilausnir. Það sem þarf er að viðurkenna vandann, átta sig á þeim skrefum sem stíga þarf til að ráða bug á honum og framkvæma. Að sjálfsögðu er þetta hægara sagt en gert og getur tekið óratíma. Eins og einn þjálfari sagði við mig um daginn: „þetta er langhlaup, ekki spretthlaup, þetta verður erfitt og tekur tíma en mun skila sér“. Ég held að þessi fleyga setning eigi við jafnt um upprætingu fordóma sem og fitunnar.

Lítum í eigin barm, berum virðingu fyrir fjölbreytileikanum og reynum að koma fram við aðra af virðingu, laus við fordóma.

Comments are closed.