Ravelry

Ravelry er algjör gullnáma fyrir prjónara og heklara. Þetta er opinn vefur þar sem m.a. er hægt er að halda utan um handavinnuverkefnin sín, uppskriftirnar sínar, punktana sem fylgja hverju verkefni, prjónana, skoða verk annarra, skoða uppskriftir, skoða mismunandi útfærslur á sömu uppskriftinni, kaupa uppskriftir, selja uppskriftir og síðast en ekki síst fá innblástur! Möguleikarnir eru endalausir!

Ég gæti eytt heilu dögunum á þessari síðu og vildi að það væru mun fleiri klukkutímar í sólarhringnum svo ég gæti framkvæmt allar þær hugmyndir sem ég fæ eftir að hafa skoðað síðuna. Hér er fínt kynningarmyndband fyrir þá sem vilja kynna sér síðuna nánar.

Á ravelry er hægt að skrá verkefnin sín, setja myndir við hvert verkefni og skrifa punkta sem fylgja. Það ómetanlegt að eiga þetta allt á sama stað og hafa yfirsýn yfir það sem maður er búinn að gera, ætlar að gera og langar að gera.

Þegar maður skráir verkefni getur maður sett hlekk (link) á uppskriftina. Þar er hægt að skoða öll þau verkefni sem aðrir hafa gert útfrá þessari uppskrift, skoða myndir, litasamsetningar, hvaða garn fólk notaði og punkta sem það skrifaði. Það er hægt að setja verkefni hjá öðrum, eða uppskriftir, í favorites og safna þannig saman uppáhaldsuppskriftunum og verkefnunum sínum. Það er líka hægt að halda utan um uppáhalds hönnuðina sína og garntegundirnar. Það er hægt að sjá hvað vinir manns eru að geyma í favorites og hvaða verkefni eru næst í röðinni hjá þeim, sem og auðvitað að bæta í röðina sína. Á ravelry eru líka hundruðir hópa sem hægt er að skrá sig í, þar á meðal nokkrir íslenskir, þar sem hægt er að skiptast á skoðunum og fá hjálp.

Á ravelry er hægt að finna endalaust af ókeypis uppskriftum. Maður getur leitað eftir verkefni, t.d. húfu, peysu eða sokkum, eftir garntegundum, garngrófleika og/eða prjónastærð. Þannig er auðvelt að finna uppskriftir sem henta fyrir allt afgangsgarnið! Uppskriftirnar eru flestar á ensku þó það leynist ein og ein íslensk inn á milli. Margir veigra sér við að prjóna eftir enskri uppskrift en þá er tilvalið að nota google og youtube til að koma sér í gegnum þær til að byrja með. Eftir nokkur skipti verður þetta svo ekkert mál!

Ég hvet alla prjónara og heklara til að kynna sér undraheim ravelry!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.