Við förum í fríið…!
Eitt af mínum uppáhaldsáhugamálum eru ferðalög og mér finnst fátt skemmtilegra en að skipuleggja ferðalög með fjölskyldunni. Það er þó ekki nóg að fjárfesta í flugmiða og leggja af stað. Eitt lykilatriði fyrir vel heppnaða fjölskylduferð er að skipuleggja farangurinn vel, ekki síst ef ferðast er með ung börn. Hér eru því nokkur ráð sem reynslan hefur kennt mér.
1# “Forundirbúningur”
Byrjaðu að undirbúa þig nokkrum vikum fyrir brottför og hafðu tiltækan lista yfir farangur. Það er ekki nauðsynlegt að stilla ferðatöskunni upp á svefnherbergisgólfið og pakka strax, en það er ágætt að byrja smátt og smátt að týna saman hluti sem hafa skal með í ferðalagið. Það er leiðinlegt að vera á síðustu stundu að leita að “skúba-græjunum” og enda svo á að finna þær ekki!
2# Það sem má ekki gleymast
- Farmiðar (og skrifa bókunarnúmerið hjá sér á aukamiða).
- Vegabréf fjölskyldunnar
- Veski: gjaldeyrir, kredit/debit kort (muna PIN númer), ökuskírteini.
- Ljósrit af vegabréfi og ökuskírteini (ekki geymt á sama stað og vegabréfið).
- Ferðatryggingar og mikilvæg símanúmer (tryggingafélag, ferðaskrifstofa, banki o.fl. t.d. ef kreditkortið týnist).
- Myndavélin. Hún er nauðsyn. Það er auðveldara að fjárfesta í tannbursta á áfangastað en myndavél!
- Hleðslutæki fyrir myndavél og síma.
3# Handfarangurinn
Áður fyrr fannst mér nóg að vera með handtöskuna mína sem handfarangur, en eftir að börnin urðu tvö, finnst mér betra að hafa flugfreyjutösku með mér. Hafa skal í huga að sum lággjaldaflugfélög leyfa eingöngu eitt stykki af handfarangri á mann. Flest betri flugfélög leyfa konum að hafa handtösku og flugfreyjutösku. Ef maður ferðast með ungabarn má yfirleitt hafa meðferðis sérstaka “skiptitösku”. Það borgar sig þó að hafa ekki fleiri töskur en maður treystir sér til að bera!
Að ferðast með lítil börn er í rauninni ekkert vandamál, en það er betra að vera viðbúin flestu! Það væri óskemmtilegt að þurfa að sitja tímunum saman í fötum eftir ælu- eða sulluslys! Ég mæli með aukableyjum, nóg af blautþurrukum og aukafatnaði á barnið og þig. Léttur jersey kjóll eða mussa tekur lítið pláss, en getur bjargað manni á ögurstundu.
Lykilatriði þegar ferðast er með börn er að hafa snakk og afþreyingarefni við hendina. Ég mæli með litlum rúsínupökkum, seríós í poka, kexi, jafnvel samlokum o.s.frv.
Vandið valið á leikföngum of afþreyingarefni vel, það er algjör óþarfi að burðast með fulla tösku af leikföngum. Litlar bækur, litir og litabók, e.t.v. lítið uppáhaldsdót. Tölvuspil fyrir stærri börnin geta gert lífið léttara! Það er frábært ef maður býr svo vel að eiga ipad, ipod eða zune sem hlaða má af barnaefni.
Mér líður ekki vel á ferðalögum nema ég sé með vatnsflösku við hendina. Er því alltaf með eina við hendina, nema rétt á meðan ég fer í gegnum öryggishliðið á flugvellinum. Í heitu löndunum þarf maður að vera virkilega meðvitaður um að vökva alla fjölskylduna vel og vandlega. Blautþurrkur, sótthreinsiklútrar og plástrar eiga líka alltaf fastan stað í handfarangrinum!
4# Ferðafötin
Eftir að öryggisreglur voru hertar á flugvöllum finnst mér það spara mikið vesen ef maður velur ferðafötin með tilliti til þess. Ég sleppi því að hafa belti og vel föt sem eru líkleg til að valda ekki hávaða þegar maður gengur í gegnum öryggishliðið. Þægilegir skór eru lykilatriði. Skór sem er auðvelt að bregða sér úr og hægt að hlaupa í eftir löngum flugvallargöngum ef þörf krefur. Munum að sumar hárspennur vekja viðbrögð hins ógnvægilega öryggishliðs! Ég hef alltaf í huga að fötin séu þægileg og síðan er alltaf notalegt að hafa með skjal eða stóran trefil, sem hægt er að breiða yfir sig eins og teppi.
5# Ferðataskan
Það er sniðugt að skoða reglur um farangur áður en haldið er af stað. Í Ameríkuflugi má taka tvær töskur á mann, en almennt er ein taska á mann í Evrópuflugi. Börn undir 2 ára fá enga tösku, en mega yfirleitt hafa meðferðis kerru og bílstól án aukagjalds, en mismunandi reglur geta verið hjá mismunandi flugfélögum svo það er um að gera að kynna sér reglurnar vel.
Almenna reglan um ferðatöskur nú til dags er að þær mega vera ca 20kg að þyngd (stundum 50 pund sem eru ca 22kg) og ekki stærri en svo að lengd+breidd+hæð nemi meira en u.þ.b. 62“ eða 157 cm. Það er leiðinlegt að lenda í því á flugvellinum að ferðataskan sé of þung og annað hvort þurfa að endurraða í ferðatöskur, eða borga hátt gjald fyrir yfirþyngd. Ég mæli því með að huga að þyngd hverrar tösku fyrir ferðalagið. Flennistórar ferðatöskur eru ekki endilega hentugar, þar sem þær geta auðveldlega orðið mjög þungar. Ef maður tekur bílaleigubíl á áfangastað er heldur ekki gott að vera með of margar og stórar ferðatöskur nema maður hafi valið extra stóran bílaleigubíl. Við val á ferðatösku er því sniðugt að hafa þetta í huga, auk þess sem að léttari ferðataska þýðir rúm fyrir meiri farangur.
Sé ætlunin að versla á áfangastað, er gott að hafa í huga að vera ekki með of mikinn farangur og eiga pláss í töskunni fyrir heimferðina. Það getur líka verið hentugt að taka aukatösku með (t.d. stóra íþróttatösku).
Loks má ekki gleyma merkimiðum á töskurnar og töskulásum (ekki læsa töskum í flugi því þá getur verið klippt á lásana).
6# Farangurinn
Að mínu mati er þægilegast að gera sérstakan fatalista fyrir alla fjölskyldumeðlimi.
Grunnlistinn þarf ekki að vera flókinn
- Ferðaföt (sbr. #4 punktur).
- Aukaföt, fjöldi fer eftir lengd ferðalags.
- Náttföt
- Nærföt og sokkar
- Sérstök föt ef þarf. Þarftu spariföt? Sundföt?
- Viðeigandi yfirhöfn.
- Ýmsir aukahlutir geta létt manni lífið. Sólhattur, fyrirferðalítið regnponsjó (t.d. einnota úr plasti fæst í ýmsum verslunum).
- Skófatnað er gott að velja vel þar sem skór geta tekið mikið pláss í töskunni. Í sólarferðum er ég oftast í sandölum allan tímann, en það getur þó verið gott að hafa íþróttaskó ef ætlunin er að ganga mikið, og auðvitað er alltaf pláss fyrir eina pæjuskó!
- Snyrtitaskan; tannbursti, hárbursti, o.s.frv.
7# Ýmsir aukahlutir sem geta létt manni lífið
- Lítið saumadót, nál og tvinni og nokkrar öryggisnælur (hafa skal í huga að skæri mega ekki vera í handfarangri).
- Það getur verið gott að hafa meðferðis smá þvottaefni í poka.
- Nokkrir pokar, t.d. fyrir óhreinan þvott o.fl.
- Rafhlöður (ef þú ert með myndavél eða önnur tæki sem þurfa á rafhlöðum að halda)
- Hleðslutæki fyrir myndavél og síma (ekki gleyma því!)
- Eyrnatappar
- Ferðavekjaraklukka (eða sími með vekjaraklukku).
- Lestrarefni
- Adressubók og símanúmer. Nauðsynlegt er að hafa addressur á áfangastað á hreinu. Ég hef líka yfirleitt meðferðis heimilisföng hjá ömmum og öfum sem við viljum senda póstkort.
- Farsími (kanna kostnað við símtöl, sms og netnotkun hjá símfélaginu þínu áður en lagt er af stað).
- Síðan er gott að huga að aðstæðum að áfangastað, s.s. ef maður er að fara á íbúðarhótel, getur kannski verið þægilegt að grípa kryddstauk með sér ef maður vill ekki kaupa heilan á áfangastað.
8# Að ferðast með börn
- Að ferðast með börn er auðvitað mismunandi eftir aldri barnsins eða barnanna. Það þarf að huga að því hvort þörf er á bílstól og kerru, svefnaðstöðu á áfangastað og þar fram eftir götunum.
- Í bleyjutösku ungbarnsins er nauðsynlegt að hafa allt þetta sem maður er venjulega með í bleyjutöskunni. Bleyjur, blautþurrkur, handspritt, skiptimottur eru í mörgum bleyjutöskum, plastpokar, snakk, stútkanna, létt teppi, aukaföt, snuð, bossakrem.
- Sé kona með barn á brjósti er gott að hafa brjóstainnlegg með. Borði barnið fasta fæðu, getur verið heppilegt að hafa aukaskeið í handfarangrinum. Einnig er gott að hafa með sér 2-3 taubleyjur.
- Lítið dót. Ég mæli sérstaklega með dóti sem er hægt að næla fast í kerruna. Leikurinn „Datt“ hefur verið mjög vinsæll hjá mínum börnum í gegnum tíðina, og því sniðugt að dót á borð við litla naghringi eða smábangsa séu fastir í ól við kerruna. Hægt er að kaupa sérstakar ólar eða nota hugvitssemina við að útbúa sjálf slíka ól.
- Ef maður er að ferðast með barn sem er farið að ganga, gætu sumir foreldrar viljað hafa beisli meðferðis. Ég er ekki að segja að maður eigi að setja börnin sín í ól, en hvet foreldra einungis til þess að hugsa út í að á mannmörgum stöðum geta börn verið afar fljótt að hverfa í mannþröngina ef þau ná að hlaupa í burtu.
- Ef barnið notar snuð er um að gera að hafa tvö til þrjú meðferðis og litla poka fyrir þau sem lenda í gólfinu.
9# Ungabörn og sólarlandaferðir
Ég elska sólarlandaferðir. Ég elska líka börnin mín. Þess vegna passa ég þau eins og ljónynjan sem ég er, og vernda þau eins og ég mögulega get fyrir sólinni.
- Sólarvörn, sólarvörn, sólarvörn. Veldu góða sólarvörn fyrir barnið. Helst án eitraðra aukaefna!
- Ég mæli með fleiri samfellum en færri. Það getur líka verið freistandi að taka bara stuttermaboli og stuttbuxur eða litla krúttlega sumarkjóla, en ég er hrifnari af því að taka síðerma samfellur, enda er minni hætta á sólbruna ef húðin er hulin.
- Sólhattur á barnið er nauðsyn! Gott að hafa í huga að hatturinn hylji vel, líka aftan á hnakkanum. Svona hattur er mjög góður:
- Það er hægt að kaupa sérstök sólgleraugu fyrir ungabörn, með eins konar teygju sem fer fyrir aftan höfuð. Ég hef ekki reynslu af því sjálf, en hef heyrt vel af því látið.
- Ekki gleyma að gefa barninu að drekka. Börn borða minna og drekka meira í miklum hita. Það þarf alltaf alltaf að hafa vatnsflösku við hendina. Drykkir á borð við gatorade hjálpa til við að koma í veg fyrir ofþornun. Það er því gott að hafa auka stútkönnu við höndina.
- Sundbleyjur eða „slysheldar“ sundbuxur eða sundbolur.
- Það eru til sniðugir sundkútar fyrir ungabörn. Athugið að það er auðvelt að brenna þegar maður er í sundi. Það er hægt að nota vatnshelda sólarvörn og langerma sundföt, eða langermaboli yfir sundfötin.
- Burðarpoki fyrir barnið. Ég er hrifin af Mobywrap, það er einnig hægt að nýta sem teppi.
- Börn þola hita og sól verr en fullorðnir, það þarf því að huga vel að því að geta veitt þeim skjól í skugga. Ég mæli með aukasólskyggni á kerruna, ég keypti svona: http://www.protect-a-bub.com/pr_deluxe-3-in-1-sunshade.html. Mæli stórlega með því! Eflaust eru til margar tegundir, en þessi hefur þann kost að vera stillanleg og hentar á flestar kerrur.
- Jafnvel er hægt að fjárfesta í sóltjaldi, ef maður vill. Mér finnst það frábært, en það er að sjálfsögðu persónubundið. Mitt er svona og hentar vel í strandferðir:
- Almennt fyrir strandferðir mæli ég líka með laki í farangurinn. Það er létt og fyrirferðarlítið, en algjör snilld á ströndinni.
10# Ferðaapótekið
- Plástrar
- Verkjatöflur
- Sólarvörn
- Aloe vera eða after sun (ef maður brennur í sólinni)
- Önnur lyf, t.d. niðurgangstöflur, lyf við hægðatregðu, sjóveikitöflur, flugnaáburður, eða annað. Lyf sem tekin eru að staðaldri.
11# Fyrir brottför – heimilið
- Amma sagði alltaf að ekki mætti fara burt fyrr nema heimilið væri hreint. Ég er sammála, það er skemmtilegast að koma heim í hreint heimili.
- Hugsa fyrir blómum og gæludýrum. Hver vökvar blómin og kryddjurtirnar? Þurfa gæludýrin pössun?
- Ýmislegt má gera til þess að fæla burtu þjófa. Gæta þarf að því að loka gluggum, bílskúr og hurðum vel, Sumir mæla með því að hafa kveikt ljós í einu herbergi. Hægt er að hafa tímastillir á lampa, eða biðja þann sem vökvar blómin um að skipta um ljós sem kveikt er á.
- Sniðugt að skilja eftir lykla og ferðaáætlun hjá ættingja eða vini. Jafnvel láta nágrannana vita að maður verði í burtu. Góðir grannar eru gulls ígildi og geta látið vita um grunsamlegar mannaferðir eða ef eitthvað kemur uppá o.s.frv.
12# Gott að vita
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veitir ýmis konar aðstoð þegar slys eða veikindi eiga sér stað erlendis og hér á eftir er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um þjónustuna sem til boða er. Einnig er á vefsíðu utanríkisráðuneytis viðvaranir ef óöruggt ástand er í ákveðnum löndum og ýmsar aðrar gagnlegar upplýsingar. Sjá hér:
http://www.utanrikisraduneyti.is/borgarathjonusta/ferdalagid/
13# Hvað ef…þú gleymir sólhattinum?
Ef þú ert stressaða týpan, þá er gott að hafa í huga að jafnvel þótt maður gleymi öllu hér að ofan, þá reddast allt. Tannburstar fást allsstaðar!
14# Njótið!
Síðast en ekki síst, njótið. Ferðalög og frí eru til þess að njóta þeirra. Með góðum undirbúningi er líklegra að allir verði afslappaðir og njóti frísins.
Góða ferð!