Er grasið grænna hinum megin?

Oft og tíðum virðist grasið vera grænna hinum megin. Ég upplifi það reglulega í mínu lífi að finnast aðrir hafa það SVO miklu betra en ég og á það til að verða pínu abbó, en samt bara pínu!

Algeng dæmi um þetta eru þegar ég fer með vinkonum mínum út að borða og þær panta eitthvað sem lítur svo MUN betur út en það sem ég pantaði mér. Mér finnst allir aðrir en ég vera flinkir að setja eitthvað fínt í hárið á sér og á börnunum sínum. Mér finnst allar húsmæður heimsins vera hagsýnni en ég og flinkari að elda og mig langar oft að gera það sama og aðrir þar sem það lítur svo vel út þegar ég skoða myndirnar. En er þetta raunin?

Ég á nokkra vini sem eru í prófum um þessar mundir og listinn yfir það sem þau ætla að gera þegar prófunum líkur er endalaus. Það er margt á dagskrá og þau geta horft öfundaraugum á aðra sem sitja úti í sólinni, horfa á þætti á kvöldin, fara út að hlaupa, eru úti að borða, fara í bíó og allt það sem fólk gerir reglulega en er ekki leyfilegt í prófum! Hverjar eru líkurnar á því að þau geri þetta allt þegar prófunum lýkur?

Á meðan óléttu stendur hugsa konur um sushi nánast á hverjum degi og láta sig dreyma. Þær langar líka óheyrilega mikið í bjór þrátt fyrir að vera almennt ekki hrifnar af drykknum. Það að fara út að hlaupa verður líka fjarlægur draumur og þráin að fá svefn og passa í föt verður líka sterk.

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að hitta Siggu Kling um helgina og konan sú er snillingur í að peppa aðrar konur upp og auka sjálfsálit þeirra á örfáum sekúndum. Hún er full af visku og orðheppin mjög og því löbbuðum við vinkonurnar hnarrreistar út frá henni, fullvissar um að við værum framúrskarandi konur sem væru að auki mjóar, fallegar og góðhjartaðar. Ráðin hennar Siggu um að horfa á sjálfan sig í speglinum og hrósa sér, blikka sjálfan sig og fullvissa um að maður sé ómótstæðilegur eru hrein snilld. Það er mun vænlegra til árangurs en að rífa sig niður í hvert skipti sem spegilmyndin poppar upp. Við þurfum ekki allar að vera í sama flokki eða fatastærð og fjölbreytileikinn er af hinu góða. Konur og karlar geta verið alvöru hvort sem þau eru 45 kíló eða 200. Það er engin ein staðalímynd betri en önnur. Við erum öll dásamleg eins og við erum og grasið er alls ekkert grænna hinum megin!

Sá sem fer með okkur út að borða hugsar líklega alveg það sama um matinn okkar. Það er hægt að sjá góðar hugmyndir hjá öðrum og tileinka sér þær. Hugmyndaríksti hönnuður heims hlýtur að fá sínar hugmyndir einhvers staðar að og lagar þær að sínum. Besti kokkur í heimi hlýtur endrum og eins að smakka mat annarra til að fá nýjar og ferskar hugmyndir og svo mætti lengi telja. Þeir sem eru í prófum sjá hugmyndir á hverju strái og finnst allt eftirsóknarverðara en að sitja inni yfir misgáfulegum skruddum og troða fróðleik inn í hausinn á sér. Þau eru hins vegar fljót að aðlagast lífinu að nýju og missa þessa fínu sýn á lífið og allt það skemmtilega í því sem verður hversdagslegt um leið og prófum líkur og draumarnir fara þá að snúast um eitthvað annað og meira!

Ef þig langar til að breyta til skaltu gera það en mundu að:

Þú ert frábær alveg eins og þú ert!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.