Trölladeigsfjör

Það er rigning og rok úti, og börnin orðin bandbrjáluð af of miklu sjónvarpsglápi. Þá er upplagt að leggja frá sér ipadinn, eða hvað það sem maður ætlaði að gera og búa til smá gæðastund fyrir fjölskylduna. Heimilisverkin geta alveg beðið smá, en fjölskyldan á skilið smá skemmtistund.

Það getur reynst erfitt að finna afþreyingu sem hentar öllum fjölskyldumeðlimum, sérstaklega ef börnin eru misgömul en það klikkar sjaldnast að gera trölladeig. Það er fljótlegt að græja deigið og svo er hægt að gera hvað sem er. Litlir fingur geta æft sig að hnoða kúlur, það má fletja út deigið og skera með piparkökumótum, nú og svo er hægt að gera afsteypur af höndum eða fótum allra fjölskyldumeðlima. Ef maður vill vera praktískur má líka föndra jólaskraut eða merkimiða á jólapakkana. Stór börn geta skorið út stafina sína og notað til þess að skreyta herbergið sitt og hvernig væri að gera óróa fyrir minnsta fjölskyldumeðliminn?

Trölladeig
300 gr hveiti
300 gr borðsalt
1 msk matarolía
vatn eftir þörfum (u.þ.b. 2,5-3 dl. Ef deigið verður of blautt má einfaldlega bæta örlitlu hveiti við)

Hveiti og salti er hrært saman og vökvanum er svo blandað við þar til hæfilegri þykkt er náð. Hnoðað og skipt á milli fjölskyldumeðlima.

Listaverkunum er svo raðað á bökunarplötu. Gott er að setja bökunarpappír undir. Litlir og þunnir hlutir bakast svo í ca 40 mínútur en stærri hlutir í allt að 1,5 klst, allt eftir því hvað listaverkin eru stór og þykk .

Þegar búið er að baka listaverkin og þau búin að kólna má svo auðvitað skemmta sér við að mála herlegheitin.

Góða skemmtun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.