Kjúklingaborgari í kvöld!

Vantar þig hugmynd að fljótlegum, einföldum og hrikalega góðum kvöldmat?

Ég gerði kjúklingaborgara um daginn, ég hafði temmilegar væntingar til bragðs þar sem ég var að gera þetta í fyrsta skipti og skellti bara einhverju útí sem ég átti til. Stunur míns ektamanns við matarborðið á meðan hann át borgarann í sæluvímu sögðu mér að ég hafði náð að skella einhverju góðu saman.

Kjúklingabringa eða -filé, hakkað í hakkavél eða matvinnsluvél
Smátt skorinn rauðlaukur
Hvítlaukur eftir smekk, rifinn á rifjárni
Smá hot sauce – eftir smekk
1 egg
1 dl hveiti, meira ef deigið er mjög blautt
1/2 dl brauðrasp
Salt og pipar

Hakkið kjúklinginn í spað og hrærið svo öllu saman við. Mótið borgara úr deiginu og steikið á pönnu við miðlungshita. Ef hitinn er of hár er hætt við að borgarinn brenni að utan en verði hrár að innan. Þetta er ekki spurning um medium rare eins og með nautaborgara, hér þarf allt að vera vel eldað í gegn.

Steikið laukhringi til að hafa með og skerið niður ferskt grænmeti að vild. Hrærið í sósuna;

Sýrður rjómi
Sítrónu- eða limesafi
Smátt skorinn graslaukur
Hálft hvítlauksrif, raspað niður
Salt og pipar

Berið fram sem fyrst eftir að borgarinn er steiktur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.