Nautasteik með ,,bernes“
Það er ekkert betra en heilgrilluð nautalund með bernes og bakaðri kartöflu. Ekkert. Þetta er hátíðarmaturinn á mínu heimili, eldað við sérstök tilefni eins og afmæli, áramót og þessháttar. Áður en við masteruðum nautið fengum við okkur oft nautasteik þegar við fórum út að borða en það eru liðnir tímar, nú er steikin alltaf langbest heima!
Það er hægt að kaupa erlendar frosnar lundir í flestum búðum, þær eru amk oftast til í Nettó og Hagkaup eða Stórkaup og stundum í Bónus. Þær eru ódýrari en íslensku fersku lundirnar, en að sjálfsögðu eru þessar íslensku betri. Ef maður kaupir frosna lund er best að láta hana þiðna í nokkra daga í ísskápnum. Lundin er svo tekin útúr ísskápnum nokkrum klukkutímum áður en hún er elduð svo hún sé ekki ísköld þegar hún fer á grillið. Það þarf að gæta þess að hún liggi ekki í eigin vökva, því þá getur kjötið súrnað.
Skerið fituna og annað “drasl” burt. Annar endi lundarinnar er mun þynnri en hinn, það má bretta þann enda inn, um það bil 5cm og binda hann við lundina, þá eldast hún jafnar, en það þarf ekki. Ef það er ekki gert verður sá endi að sjálfsögðu meira eldaður.
Lundin er svo pipruð og söltuð ef vill, og grillið olíuborið.
Við notum tvær aðferðir við að elda lundina, annars vegar bara á grillinu og hins vegar fyrst á grilli og svo í ofni. Ef hún er eingöngu elduð á grillinu verður maður að nota kjöthitamæli, en það er hægt að sleppa honum í ofninum.
Grillið er hitað og svo er lundinni lokað á grillinu.
Ef það á að elda lundina eingöngu á grillinu er slökkt á brennaranum undir kjötinu og hinir stilltir á miðlungshita. Kjöthitamæli er stungið í lundina og hún elduð þangað til hún nær 50-55 gráðum (fínt að miða við 52 til að byrja með og prufa sig svo áfram). það þarf að snúa lundinni amk einu sinni svo hún eldist jafnt. Þegar réttu hitastigi er náð er hún tekin af grillinu, álpappír settur yfir hana og hún látin jafna sig við stofuhita í 10 mínútur. Við það hækkar kjarnhitinn örlítið og lundin heldur áfram að eldast aðeins.
Ef ofninn er notaður er hann hitaður í 180 gráður. Eftir að búið er að loka steikinni á grillinu er hún sett inn í miðjan ofninn í 10 mínútur. Hún er svo tekin út úr ofninum og látin standa við stofuhita í 10 mínútur. Svo fer hún aftur inn í ofninn í 10 mínútur og að lokum látin standa við stofuhita, helst með álpappír yfir sér, í 10 mínútur áður en hún er borin fram.
Þetta miðast við að lundin verði medium rare. Það er að sjálfsögðu hægt að elda hana meira en ég mæli ekki með því, hún er best svona! Sumir vilja kjötið samt meira eldað og þá er ekkert mál að setja hluta af lundinni aftur á grillið eða í ofninn í smástund.
,,Bernes“
Það er ekki svo mikið mál að gera bernaisesósu, þessi útgáfa er gerð á mínu heimili með steikinni:
250 gr smjör
4 eggjarauður
2 tsk béarnaise dropar
¼ tsk kjötkraftur
½ tsk salt
¼ tsk pipar
steinselja (ef vill)
Smjörið er brætt í potti á lágum hita á meðan eggjarauðurnar eru þeyttar vel.
Krafti, salti, pipar og dropunum bætt útí eggjarhæruna og þeytt.
Smjörið er svo látið renna í mjórri bunu ofan í eggjablönduna og þeytt á meðan. Það er gott að sleppa því að hella “mjólkinni” (þessu hvíta sem sest á botninn á pottinum) og passa að hafa smjörið ekki mjög heitt, því þá geta eggin eldast.
Steinseljan er svo sett útí síðast.
Með heillri lund (fyrir c.a 10 manns) er fínt að gera tvöfalda uppskrift.
Ef eitthvað verður eftir af lundinni er tilvalið að nota afgangana í steikarsamlokur daginn eftir og svo á pizzur daginn þar á eftir!
Steikarsamlokur:
Brauðtertubrauð – hver og einn sker sér eins stóra sneið og hann vill
Nautakjöt – hitað aðeins á lágum hita í ofninum
Bernes sósa
Smjörsteiktir sveppir
Pönnusteiktur rauðlaukur, hvítlaukur og paprika
Kirsuberjatómatar
Kál
Nautakjötspizza:
Pizzadeig
Nautakjöt
Bernessósa (ef notaður er kaldur afgangur þá er þetta næstum eins og smjör, en það er ekkert verra)
Smjörsteiktir sveppir (afgangurinn síðan deginum áður)
Pönnusteiktur laukur, hvítlaukur og paprika (afgangurinn síðan deginum áður)
Furuhnetur
Ostur (ég nota mozzarellablöndu og jafnvel piparost)
Pipar
Parmesan ostur ef vill
Pizzabotninn bakaður neðst í ofninum á pizzagrind á hæðsta hita í 3-4 mínútur.
Bernessósan sett á, svo ostur, kjöt, sveppir, laukur, paprika, furuhnetur og svo meiri ostur ofan á allt saman.
Sett neðst í ofninn í nokkrar mínútur, eða þangað til osturinn er bráðinn. Nýmalaður pipar settur ofan á áður en hún er borin fram.
Njótið!