Spínat- og fetafyllt kjúklingabringa

Hvað er dásamlegra en fetaostur? Fetaostur blandaður við spínat og troðið innan í kjúklingabringu kannski?

Þetta er of gott til að prófa ekki!

Kjúklingabringur, ein á mann. Skerið vasa í bringurnar en passið að skera ekki í gegn.
Hvítlaukur, magn eftir geðþótta.
Spínat, einn poki.
Fetaostur.

Salt og pipar.
Beikonsneiðar.

Steikið smátt saxaðan hvítlaukinn í olíu og bætið fljótlega spínatinu saman við. Saltið örlítið en piprið aðeins meira.

Þegar spínatið hefur snarminnkað að rúmmáli og er orðið meðfærilegt (ekki gott að steikja of mikið) færið það þá af pönnunni og í skál. Hrærið fetaostinum við. Passið að það fari ekki mikið af olíunni með. Það er gott að hræra þessu saman með gaffli og reyna að merja fetaostinn aðeins í leiðinni. Troðið svo gumsinu í vasana á bringunum saltið og piprið bringurnar og vefið þær svo með beikoninu. Steikið svo á sömu pönnu og þið steiktuð spínatið á. Olía er óþörf, það kemur næg fita af beikoninu. Steikið í stutta stund á hvorri hlið og færið svo bringurnar í eldfast mót og inn í heitan ofn, 180°C. Hversu lengi þær eru í ofninum fer eftir því hversu lengi þú steiktir þær á pönnunni. Þetta ætti að taka um 20-30 mínútur. Prófaðu að taka eina út og skera í tvennt til að vera viss um að kjúklingurinn sé eldaður í gegn.

Á meðan bringurnar malla í ofninum er tími til að útbúa meðlætið. Ég hef það fyrir vana að bera fram sveppasósu og sætkartöflumús með þessum rétt. Sveppasósuna geri ég þannig:

Steiki ferska sveppi á pönnu, í miklu smjöri. Þegar sveppirnir eru að verða klárir (ekki ofsteikja) þá bæti ég örlitlu salti og pipar, ásamt góðum grænmetiskrafti við. Ef krafturinn er mjög saltur, skaltu sleppa að salta aukalega. Fljótlega bæti ég smjöri við aftur og þegar það er bráðið strái ég hveiti á pönnuna og hræri öllu gumsinu saman áður en ég bæti mjólk við. Það má að sjálfsögðu notast við rjóma en ég hef vanið mig á mjólkina. Bæta við mjólk, hræra, bæta við mjólk, hræra, smakka, bæta allskonar sem manni dettur í hug útí og gjörðu svo vel! Þú ert komin með dýrindis heimagerða sveppasósu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.