Þessi réttur er mjög vinsæll á mínu heimili og slær alltaf í gegn, er svo skemmtilegur og góður!
Það sem þú þarft í hann er:
Doritos eða aðrar nachos flögur
Kjúklingur – kryddaður með mexíkósku kryddi (tilvalið að nota afganga)
Tómatar
Avacado
Rauðlaukur
Hvítlaukur, paprika, kóríander og/eða ólívur ef vill, eða bara hvað sem þér dettur í hug
Ostur – ég nota ostablöndu með cheddar, mozzarella og gouda
Salsasósa – annað hvort keypt tilbúin eða heimagerð
Pipar
Kjúklingurinn eldaður og skorinn í bita.
Grænmetið saxað niður og osturinn rifinn.
Nachos er sett í botninn á ofnföstu móti, salsasósa sett ofan á hér og þar og grænmetinu, kjúklingnum og ostinum dreift ofan á. Annað lag af nachosi sett yfir og meira af sósu, kjúkling, grænmeti og osti. Piprað aðeins og sett inn í ofn á 180 gráður þangað til osturinn er alveg bráðinn.
Það er gott að bera þetta fram með heimagerðri salsasósu og guacamole. Ég blanda þessu stundum saman, bý til sósu sem er c.a. svona:
Hvítlaukur (c.a. 3 rif)
Rauðlaukur (c.a. hálfan)
Kóríander (slatti)
Sett í blandarann eða skorið saman með töfrasprotanum og blandað í smástund. Bæti svo útí:
salti
pipar
limesafa
avacadó (c.a. 3 stk)
og hakka aðeins betur. Að síðustu bæti ég útí:
tómötum (c.a. 4 stórum)
og hakka í smástund, þangað til þeir eru komnir niður í litla bita.
Þessi réttur er tilvalinn sem föstudagsréttur fyrir fjölskylduna, forréttur í matarboðið eða í saumaklúbbinn!