Allskonar ofan á brauð…eða kex?

Það er alveg nauðsynlegt að bjóða uppá eitthvað gott þegar gesti bera að garði, er það ekki? Hvað þá að mæta með eitthvað dýrindis gúmmelaði í saumaklúbbinn eða í vinnuna og gleðja vinnufélagana?

Hér eru nokkrar hugmyndir af góðum salötum, sem virka alveg jafnvel hvort sem þau fara ofan á ristaða brauðsneið, snittubrauð, gott kex eða hrökkbrauð!

Avocadoeggjasalat

1 avocado
2 egg
sýrður rjómi
lime safi
smátt skorinn graslaukur
salt og pipar

Avocadoið skorið niður í bita og hrærðir, þannig að einhverjir bitarnir merjist. Eggjunum bætt við ásamt hinum hráefnunum. Magnið fer eftir smekk hvers og eins, ég setti rétt rúmlega eina matskeið af sýrða rjómanum og um það bil 1 msk af lime safanum. Þetta er ekki mjög bragðsterkt salat og því hægt að bæta við fleiri kryddum ef vill, td færi chilli vel með þarna. Salatið geymist ekki vel en það er hægt að lengja geymslutímann með því að geyma steininn úr avocadoinu með salatinu, hann á að koma í veg fyrir að avcadoið verði brúnt.

Túnfisksalat

2 egg
1 dós túnfiskur (eyðum frekar meiri pening í betri túnfisk, það getur skemmt gott salat að hafa lélegan túnfisk)
Kotasæla
Smátt skorin rauð paprika
Fetaostur
Salt og pipar

Öllu hrært saman, reynið að merja fetaostbitana í kurl.

Ostasalat

Kökuostur að eigin vali, 1-3 tegundir
Sýrður rjómi
Vínber
Paprika (rauða er í mesta uppáhaldi hér)
Blaðlaukur
Limesafi (má sleppa)
Ananaskurl (má sleppa – athugaðu að það þarf að láta vökvann renna vel af áður en þessu er bætt við)

Það má endilega breyta til hér og bæta við eins og vill. Þetta er salat sem allir þekkja og hver og einn á sína uppáhaldsaðferð. Prófaðu að skipta einum ostinum út fyrir t.d. sterkan steyptan ost sem þú skerð í bita. Farðu sparlega með sýrða rjómann og lime safann, svo salatið verði ekki að graut.

Guacamole

Guacamole er svo sannarlega ekki bara fyrir nachosflögur. Það bragðast alveg jafn vel á góðu kexi, t.d. Tuc með salti og pipar.

1 Avocado eða 2 lítil, skorið í bita
Limesafi
1/2 tómatur eða 1 lítill, fræhreinsaður og smátt skorinn
1 msk mjög smátt skorinn rauðlaukur
1/2 hvítlauksrif, saxað
Ferskt chilli, mjög smátt skorið, magn eftir smekk
Ferskt kóriander, saxað, magn eftir smekk
Salt og pipar

Öllu hrært saman með gaffli, avocadobitarnir eru marðir í skálinni. Kryddað eftir smekk, smakkaðu! Ef þú þarft að geyma guacamoleið er best að geyma steininn úr avocadoinu með í gumsinu svo það verði ekki brúnt. Athugaðu samt að guacamole geymist illa og bragðast best alveg ferskt.

Að lokum má ekki gleyma saumaklúbbsrétti Gyðjanna, hann er ómótstæðilegur ofan á ristað brauð eða gott kex.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.