Besta sparnaðarráðið: Gerðu hlutina af yfirveguðu ráði
Ég reyni að fara eftir þessu sjálf, en það klikkar samt stundum. Bestu kaupin og þau sem ég hef verið ánægðust með til lengdar eru samt yfirleitt þau sem ég hef gert af yfirveguðu ráði. Maður getur nefninlega í raun sparað sér heilmikið þannig.
Þegar kemur að innkaupum þarf maður að spyrja sig nokkurra spurninga, t.d.:
Þarf ég raunverulega á þessu að halda eða á ég eitthvað annað nú þegar sem nýtist á sama hátt? Stundum á þetta t.d. við um eldhúsáhöld, fatnað eða annað. Maður kemst að því að það sem manni langaði að kaupa gerir kannski næstum ekkert aukalega fyrir mann en það sem maður á nú þegar fyrir. Stundum getur maður jafnvel komist að því að maður hefur í raun ekkert að gera við þennan hlut sem mun svo liggja upp á skáp eða inn í geymslu megnið af árinu. Þá getur jafnvel verið skynsamlegra að fá slíkan hlut lánaðan eða leigðan þegar á þarf að halda.
Hversu dýran/góðan hlut þarf ég að kaupa mér?
Að kaupa sér dýrari hlut þýðir nefninlega stundum sparnaður. Stundum þegar maður kaupir sér það ódýrasta er maður í raun að fórna notkuninni með því að kaupa eitthvað sem í raun virkar ekki eins og til var ætlast og endar á því að sitja inní skáp þar til maður gefur enhverjum það eða selur aftur á hálfvirði. Ef maður ætlar að nota hlutinn er því eins gott að hann sé nothæfur. En það er heldur ekkert skynsamlegt við það að kaupa sér dýran hlut ætlaðan atvinnumanni þegar maður er sjálfur ekki að fara að nota hann eins mikið eða á sama hátt.
Hvaða þættir við hlutinn eru nauðsynlegir og hvaða þættir eru ónauðsynlegir?
Þetta er afar mikilvæg spurning og í hana fer oft mesta vinnan. Þetta getur krafist lestur og „gúggl“ vinnu á netinu við að finna út hvaða þættir eru hefðbundir í slíkum hlutum og hvaða þætti öðrum fannst nauðsynlegir eða ónauðsynlegir. Oft getur verið gott að leita að umsögnum „review“ um hlutina, t.d. á amazon.
Verðsamanburður
Þegar fundið er út hvaða þættir eru nauðsynlegir hefur maður væntanlega fundið út hvaða merki og hvaða týpur standa manni til boða og þá hefst verðsamanburðurinn, milli búða og milli merkja. Hér getur jafnvel verið gott að gefa verðsamanburð á netinu. En munið að ef þið ætlið að panta erlendis frá bætist við sendingarkostnaður, virðisaukaskattur og tollar sem getur orðið mjög hátt þegar uppi er staðið, en getur líka komið betur út (www.tollur.is).
Stundum kemst maður að því að hluturinn sem manni langaði svo í og var næstum búin að fara að kaupa er ekki sá sem manni vantar, eða að skynsamlegra væri að bíða með kaupin. Það getur vissulega verið svekkjandi en þó oft á tíðum minna svekkjandi en að horfa á hann rykfalla ónotaðan.
Ekki missa þig í verslunarferðum eins og sönnum Íslendingi sæmir
Ef þú ferð í verslunarferð erlendis vertu þá búin að gera innkaupalista, rétt eins og þú sért að fara í matvörubúðina. Það er miklu skynsamlegra að vera búin að skoða t.d. á netinu fyrirfram það sem manni vantar og hvað væri skynsamlegt að kaupa heldur en að missa sig í búðunum og kaupa fullt af dóti sem gæti kannski einhverntíman verið sniðugt. Það er ekkert asnalegt að hafa lista með sér í verslunarferð, það er bara skynsamlegt.
Það er ekki óvitlaust að vera búin að fara vel í gegnum fataskápana á heimilinu og skoða vel hvað er til, hvað vantar, hvað vantar ekki og svo framvegis. Þegar ég hef verið að gera mig klára í slíkar ferðir hef ég skrifað niður nákvæmlega hvað vantar á hvern heimilismeðlim og stundum einmitt bætt við; vantar ekki sokkabuxur! Þá dett ég síður í þann pytt að láta góð verð ginna mig í að kaupa of mikið af einhverju sem ég svo raunverulega þarf ekki. Þótt þetta sé á góðu verði, þá þarftu ekki að kaupa það ef engann vantar það. Er það nokkuð?
Farðu vel með það sem þú átt
Þetta er mjög mikilvægt. Ef þú hugsar vel um það sem þú átt þá eru litlar líkur á að þú þurfir að eyða pening í endurnýjun eða viðgerðir. Passaðu uppá símann og gleraugun. Litlir fingur eru fljótir að rispa viðkvæma hluti. Gakktu vel um fötin þín. Ekki gleyma bílnum! Farðu reglulega með hann í skoðun og smurningu, það er betra að borga fyrir viðhald en viðgerð. Það sama gildir um tennurnar, óvæntur tannlæknakostnaður getur sett fjárhaginn á hliðina en með reglulegu eftirliti allra í fjölskyldunni er hægt að halda þeim kostnaði niðri. Gakktu vel um innréttingar og kenndu börnunum að gera það sama. Hurðar á innréttingum geta skemmst fljótt ef illa er gengið um þær.