Í dag er bóndadagur og því upplagt að gleðja bóndann sinn. Það má gera með ýmsu móti og þarf alls ekki að vera flókið eða dýrkeypt. Ég er ekki að segja að karlmenn séu einfaldir, en það er einfalt að gleðja. Það er líka gaman að gleðja og ef maður á ánægðan eiginmann, gæti vel verið að hann muni eftir konudeginum sem er eftir mánuð.
Ef þú ert ekkert búin að plana daginn eða varst einfaldlega búin að gleyma honum, koma hér nokkrar hugmyndir að litlum gjöfum:
Bjórvöndur í staðinn fyrir blómvönd (nokkrar tegundir af bjór, tilvalið að hafa íslenskan þorrabjór, vafðar saman og pakkaðar inn í sellófan)
Þorrabakki. Fæst tilbúinn í næstu matvöruverslun en ef þú hefur tíma er fínt að velja sjálf það sem þú veist að gleður bóndann sérstaklega
Harðfiskur og íslenskt smjör
Sokkar
Húfa
Trefill
Bindi (það reynist vinsælli gjöf á morgum heimilum en maður heldur, að gefa bóndanum sínum bindi)
Ilmvatn
Lyklakippa
USB-lykill (þarfaþing og aldrei til, er þetta ekki tilvalið!)
Mynd í ramma
Glaðningur þarf alls ekki að kosta neitt. Það má baka uppáhaldskökuna hans, færa honum morgunverð í rúmið, elda uppáhaldsmatinn hans eða skipuleggja eitthvað óvænt. Hvernig væri að skjótast í bíó? Eða keilu? Eða billjard? Hvað með notalegt fótabað og baknudd? Möguleikarnir eru óþrjótandi. Í rauninni getur allt sem brýtur upp hversdagsleikann verið góð bóndadagsgjöf.
Kannski fær hann bara frí frá uppvaskinu?
Svo má líka leggja sig aðeins meira fram í svefnherberginu. Netasokkabuxur geta glatt margan bóndann. Og af hverju að pakka inn bindinu sem þú ætlar að gefa honum inn í gjafapappír? Settu það á þig og bíddu hans inn í svefnherbergi – nakin!
Það er svo að sjálfsögðu ekki ósanngjörn krafa um það, að þótt bóndadagurinn sé í dag, þá séu hinir 364 dagar ársins konudagar!
Gyðjurnar eiga sína uppáhaldseftirrétti sem eru tilvaldir fyrir dag sem þennan, appelsínusúkkulaðidúndrið slær alltaf í gegn. Ef þú ætlar að fara alla leið og vera með þrírréttað þá mæla Gyðjurnar með þessum dásamlega sveppaforrétt.