Tómatar og basilíka

Það var á fallegum degi, í sólríku landi við Miðjarðarhafið, sem ég átti samtal við mann frá Kósóvó. Myndarlegur maður, með svart hár og augu dekkri en dekksti miðnæturhiminn. Samtalið barst um heima og geima og ég spurði hann af einskærri forvitni hvað væri helsta náttúruauðlindin eða iðnaðurinn á þessu svæði. Eldurinn logaði í augunum á honum og af fullri ástríðu svaraði hann: „tómatar, við framleiðum bestu tómata í heimi“. Þvílík ástríða fyrir tómötum!

Svarið kom mér umtalsvert á óvart. Held ég hafi bara alveg þagnað í smástund.

Þarna var ég, dekurdýr frá Íslandi, þar sem náttúruauðlindirnar eru svo margar og óþrjótandi, að það hreinlega kom mér á óvart að helsta auðlind lands gæti verið tómatar! En ég gat ekki neitað því að tómatarnir voru ljúffengir, rauðir, sætir og safaríkir.

Tómatar

Þrátt fyrir norræna afstöðu í hnattrænu tilliti og landlægan skort á sólskini á vissum árstímum, erum við hér á Íslandi svo heppin að við eigum jarðvarma og dágóðan skammt af ljómandi hugviti. Þess vegna búum við svo vel að eiga prýðilega tómata, allt árið um kring.

Tómatar eru til margs nýtilegir og alveg stútfullir af gagnlegum vítamínum. Þeir eru hitaeiningasnauðir en heilsusamlegir. Stútfullir af A, C og K vítamíni og undraefni sem kallast lýkópen sem er stórkostlegt fyrir kroppinn. Þá sér í lagi fyrir innviði lungna og meltingarfæra, þvagrása, kynkirtla og frjósemi, og er sérstaklega gagnlegt blöðruhálskirtli karlmanna. Ítalskir karlmenn fá sjaldan blöðruhálskrabbamein, samkvæmt alþjóðlegum heilbrigðisskýrslum og það sama á við um karlmenn frá Mexíkó en tómatar leika lykilhlutverk í ítalskri og mexíkóskri matargerð. Þá er talið á lýkópen haldi aftur af meinvörpum og geti því verið afar gagnlegt í baráttu við krabbamein, sem og aðra sjúkdóma.

Best er að geyma tómata við 10-12°c og alls ekki í ísskáp, þar sem þeir geta skemmst í of miklum kulda.
Ef tómatarnir eru óþroskaðir og þú vilt flýta fyrir því að þeir verði tilbúnir er hægt að setja þá á hlýrri stað, best er að geyma þá í brúnum bréfpoka.

Basilíka

Eins og svo mörg önnur krydd, er basilíka einstaklega holl. Gyðjur elska basil!

Basilíka býr yfir efnasamböndum sem geta hjálpað til við að fyrirbyggja sjúkdóma og er sögð bólgueyðandi og bakteríudrepandi. Basilíka er m.a. rík af A og K vítamíni, er sérlega járnrík og er góð fyrir sjón, bein og blóð.

Tómatbasilsúpa

Hér er súpa sem mér finnst sameina þessar tvær undravörur móður náttúru á himneskan máta, tómat-basilsúpa. Algjör vítamínsprengja og mjög fljótleg.

Það sem þú þarft er eftirfarandi:

1 dós tómatar (eða tómat-passata í glerflösku)
5 tómatar, afhýddir (mega gjarnan vera fleiri, sérstaklega ef þeir eru litlir)
4-5 dl grænmetissoð (ég sýð vatn í katlinum og nota grænmetiskraftinn frá Sollu)
Dágóður slatti af basillaufum. Ég nota stundum allt búntið, en rúmlega hálft er alveg nóg.
1 tsk sykur (eins og með alla tómatrétti er töfrainnihaldið „spoonful of sugar“. Ef tómatarnir reynast of súrir, má vera að það þurfi að setja örlítið meira).
1 bolli matreiðslurjómi (má vera minna, og þá er alveg hægt að setja örlítið maizena mjöl til að þykkja súpuna en í rauninni er alveg borðleggjandi að það er heilsusamlegra, a.m.k. betra að halda rjómanum – vil ég meina)
1 msk smjör
1 laukur, saxaður og brúnaður í smjörinu
Salt og pipar eftir smekk

Laukurinn er saxaður og brúnaður í smjörinu í potti. Ég sýð vatn í katlinum, skola fersku tómatana og skelli svo í skál. Helli sjóðandi heitu vatninu yfir tómatana og þá er barnaleikur að afhýða þá. Sker þá svo í grófa bita og skelli út í laukinn, ásamt niðursoðnu tómötunum, sykrinum og soðinu (sem ég bý gjarnan til úr heita tómatavatninu). Látið malla í smá stund.

Bætið basilíkunni út í og takið töfrasprotann og maukið eftir smekk. Loks er rjómanum bætt út í og salt og pipar ef þörf krefur.

Þessi súpa er dásamlega góð með góðu brauði eða bara hvaða brauði sem er. Hún er líka góð upphituð daginn eftir.

Ef maður vill matmeiri súpu, má gjarnan bæta gulrótum og jafnvel sellerí við og þá er líka ilmandi gott að hafa smá hvítlauk með í spilinu ef maður þarf að hrekja óvini á borð við kvef á brott eða vill breyta aðeins til.

Salade Caprese

Ef þú átt afgangstómata daginn eftir að þú bjóst til dásamlegu tómat-basil súpuna hér að ofan og nokkur fersk basilíkublöð, mæli ég algjörlega með ,‚salade Caprese‘‘, þ.e. sneiddir tómatar, sneiðar af ferskum mozzarella og basilíka. Ef maður vill er gott að setja örfáa dropa af extra virgin ólífuolíu og/eða balsam edik ásamt smá af salti og pipar. Þetta er huggulegasti forréttur eða meðlæti með máltíð.

Tómatar, sneiddir þversum
Ferskur mozzarella, skorinn í sneiðar (til fínar kúlur í flestum stórmörkuðum)
Basilíka, eitt laufblað á hverja sneið eða dreift yfir allt saman
Extra virgin ólífuolía (ef þú vilt)
Gott balsam edik (ef þú vilt)
Smá salt og pipar eftir smekk

Raðað huggulega á fallegan disk.

Ég mæli stórkostlega með tómötum og basilíku, enda bæði bráðhollt og gott. Persónulega held ég að tómatar séu líka góðir fyrir kynhvötina. En það er bara ágiskun.

Ef þú vilt lesa þér frekar til um jákvæð áhrif tómata og basilíku á heilsu þína eru ógrynni af ritrýndum fræðigreinum til á veraldarvefnum, Gyðjurnar styðjast að mestu við pubmed.com.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.