Við öllu viðbúin

Nú rignir yfir mann fréttum af inflúensu, slæmu kvefi og miklum veikindum. Enn sem komið er hefur mitt heimili sloppið en ég tel það vera tímaspursmál hvenær Frú Flensa bankar uppá. Komdu bara, ég er tilbúin!

Þegar svínaflensufaraldurinn var yfirvofandi hérna um árið þá átti ég von á því að öll fjölskyldan myndi leggjast enda erum við öll með tölu að vinna eða starfa þar sem áhættan á smiti er mikil. Mikil samskipti við fólk og nálægð er áhættuþáttur. Ég hafði heyrt einstæðar mæður, vinkonur mínar, oft ræða um það hversu erfitt það er þegar þær eða börnin veikjast á kvöldin eða nóttunni og þær eiga ekkert; ekki stíla, ekki orkudrykki, ekki neitt. Og auðvitað hringir maður ekki eftir aðstoð seint að kvöldi er það? Ég ætlaði ekki að lenda í þessu, maðurinn minn vinnur mikið á kvöldin og á nóttunni og eins og ég segi, ég ætlaði ekki að lenda í því að vera með barn með háan hita, enga stíla og engan til að bjarga mér um þá. Þannig að ég útbjó veikindakassa!

Þegar ég gerði kassana fyrst þá var ég svo viss um að allir fjölskyldumeðlimir myndu leggjast illa í svínið þannig að ég gerði einn kassa fyrir hvern fjölskyldumeðlim. Núna er ég ekki alveg eins stórtæk, það er alveg nóg að hafa bara einn.

Í kassanum eru

• Tvær gatorate flöskur, með bragði sem ég veit að krakkarnir vilja. Í veikindum, hvort sem það er flensa eða ælupest, skiptir vökvi miklu máli. Íþróttaorkudrykkir eru flestir með einhverjum söltum í sem maður tapar í veikindum og þess vegna valdi ég að hafa þá. Fyrir yngsta stubbinn setti ég safafernu, sykraða. Ég hef líka vanið mig á að eiga salt- og sykurlausnartöflur sem hægt er að fá í næsta apóteki, þær eru settar í vatn eða ávaxtasafa.

• Hitalækkandi stílar, einn pakki á krakka, með viðeigandi styrkleika. Elsta barnið er hætt að vilja stíla en það er hægt að fá tuggutöflur handa því. Sá pakki er líka í kassanum. Ég er líka með íbúfenmixtúru sem ég varð mér úti um erlendis. Synd að það sé ekki hægt að fá svoleiðis hérna á Íslandi. Ekki má gleyma hitamælinum! Eða verkjalyfjunum fyrir fullorðna fólkið!

• Snýtibréf og mikið af því! Ég valdi mjúkt og gott með ,,balsam“ í. Þegar maður er veikur þá á maður skilið allt það besta.

• Afþreying! Ný DVD mynd á fjölskyldumeðlim. Nú hrista margir hausinn yfir kostnaðinum en ég hef reyndar verið að safna í sarpinn í afmælisgjafahrúgu og gat tekið úr henni. Nema fyrir eiginmanninn, hann getur svosem bara horft á sjónvarpið. Mér finnst oft betra að láta krakkana horfa á eitthvað nýtt þegar þau eru veik og vilja bara liggja og horfa. Það heldur betur athyglinni og dreifir huganum frá vanlíðaninni.

• Hóstamixtúra og nefsprey. Eftir að nefspreyið hefur verið opnað og notað þá merki ég það eigandanum, ekki nota nefsprey á milli einstaklinga. Fyrir yngsta fólkið er hægt að fá nefdropa í litlum ampúllum. Þá er einn skammtur (í báðar nasir) í einni ampúllu og þú getur lagt barnið niður og sprautað beint upp í nefið á þeim. Styrkleikinn í venjulegum nefspreyjum er of mikill fyrir þessi yngstu.

• Vaselín á sára nebba. Hver fjölskyldumeðlimur á sína krukku svo það sé ekki verið að bera neitt á milli. Ég keypti nokkrar litlar dollur í einhverri af þessum ódýru búðum og tók úr stóru dollunni og setti í þær minni. Lítið nær langt í þessum efnum.

• Hálsmolar! Eiginmaðurinn getur ekki án þeirra verið þegar hann kvefast og ég er að komast á sömu skoðun, það er merkilegt hvað þetta mýkir upp hálsinn.

• Lítil flaska með handspritti. Handþvottur og smá spritt á eftir getur skipt sköpum í flensuvörnum. Auðvitað er lítið hægt að gera þegar smitaður einstaklingur hóstar eða hnerrar í þinni nálægð en það er hægt að reyna að koma í veg fyrir snertismit með handþvotti og spritti. Ítrekaðu líka fyrir börnunum þínum að vera ekki með fingurna í andlitinu.

Ég geymi kassann uppí skáp og vonast til þess að þurfa ekki að nota hann en ef til þess kemur að krakkarnir eða við foreldrarnir veikjumst á óheppilegum tíma þá eigum við alltaf eitthvað sem getur hjálpað til. Ef kassinn er samt lítið notaður þá þarf að fylgjast með dagsetningunum á stílunum, þeir geymast ekki endalaust.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.