Hver kannast ekki við það þegar löngunin til að baka hellist yfir mann? Að gera eitthvað í eldhúsinu, eitthvað gott? Það þarf ekki alltaf að innihalda hveiti og súkkulaði þó það standi alltaf fyrir sínu. Þetta hrökkbrauð er eins gott á bragðið og það er einfalt! Það er tilvalið að skella í það á föstudagskvöldi og eiga þá ljómandi laugardagsmorgunverð framundan, nú eða bara gera þetta að morgni til ef þú vaknar snemma.
2 tsk grænmetiskraftur (má nota kjúklingakraft)
7 dl vatn
3,5 dl haframjöl
3,5 dl gróft rúgmjöl
1 dl hörfræ
1 dl sólblómafræ
1,5 dl sesamfræ
Blanda öllu saman og smyrja svo þunnt á ofnplötur klæddar bökunarpappír. Þessi uppskrift á að duga á þrjár plötur.
Ofninn þarf að vera 150° heitur (blástur ef ofninn býður uppá hann) og fyrst fara plöturnar inn í 15 mínútur, þá tekuru þær út og skerð í deigið með hníf (eða pizzahjóli!) til að deila hrökkbrauðinu niður í bita. Settu plöturnar aftur inn í ofninn og bakaðu í um það bil 45 mínútur í viðbót.
Það er líka tilvalið að skella í gott ananas chutney til að hafa með hrökkbrauðinu. Það er líka einfaldara en maður heldur.
1 rautt chili
2 stórir hvítlaukar
3-4 cm af fersku engiferi
um það bil dl af ediki
ein dós af ananasi í bitum
2 msk sykur
Þessu er maukað saman, nema ananasinn og sykurinn, með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Ef hvorugt slíkt tæki er til staðar þá má skera allt saman mjög, mjög smátt. Maukinu er hellt í pott ásamt ananasnum og sykrinum. Látið sjóða í hálftíma. Setjið frekar minna en meira af sykrinum því hann vill brenna í botninum.
Njótið vel!