Við hjónin ákváðum þessi jólin að gefa hvort öðru litla jólagjöf í ár. Innan vinkonuhópsins hafði verið rætt um að gefa makanum stefnumótakassa og ég ákvað að slá til. Við hittumst eitt kvöldið í desember, spjölluðum, borðuðum konfekt, drukkum malt og appelsín, hlustuðum á jólatónlist, skiptumst á hugmyndum og föndruðum kassana.
Allt sem þarf í þá er lítill sætur kassi, 12 umslög sem passa í kassann og 12 spjöld sem passa inn í umslögin. Á spjöldin skrifar maður svo uppskrift af stefnumóti, setur eitt spjald í hvert umslag og merkir umslögin mánuðunum. Það er því hægt að haga stefnumótunum algjörlega eftir fjárhag og aðstæðum hverju sinni. Það er alveg hægt að búa til stefnumót sem kosta ekki neitt eða miðast bara við það sem maður á og svo er líka hægt að fara alveg á hinn veginn, eftir því sem veður og vindar leyfa, maður stjórnar alveg umfanginu. Dæmi um atburði sem vinkonurnar settu í kassann var ,,sushi og hvítvín“, ,,rafmagnslaust kvöld“ og ,,leikhúsferð“. Möguleikarnir eru endalausir, það eina sem stoppar mann er hugmyndaflugið! Það er hægt að fara í göngutúr meðfram sjávarsíðunni, bjóða makanum uppá hótelferð eða sleðaferð uppá Langjökul. Allt eftir áhugasviði og fjárhag hvers og eins.
Það er líka hægt að hafa þema í stefnumótunum. Eru einhverjir veitingastaðir sem þið hafið lengi talað um að fara á en aldrei gefið ykkur tíma? Hvernig væri að prófa 12 nýja veitingastaði? Það þarf ekki alltaf að vera dýr staður, það hafa ófá stefnumótin farið fram á Bæjarins bestu! Hvernig væri að prófa eitthvað nýtt í hverjum mánuði? Eða vera túristar í ykkar heimabæ? Ef þið eruð á höfuðborgarsvæðinu eru möguleikarnir endalausir; hvalaskoðun, draugaganga, fara upp í Hallgrímskirkjuturn, nestisferð á Austurvelli.
Við létum okkur nægja að skrifa lýsingu á stefnumótinu á spjöldin, en það er hægt að láta ýmislegt smálegt fylgja með sem gott væri að hafa með á stefnumótið þann mánuðinn, t.d. tónleikamiða eða nýtt bindi. Við ákváðum líka að afhenda öll umslögin í einu í kassanum og svo yrði viðeigandi umslag opnað í byrjun hvers mánaðar. Það mætti líka sleppa kassanum og afhenda bara umslag í hverjum mánuði, eða í kringum sérstaka daga, t.d. brúðkaupsafmæli. Þá væri hægt að gera vikuna fram að brúðkaupsafmælinu sem stefnumótaviku. Vikan myndi svo enda á góðu stefnumóti, t.d. nótt á hóteli með góðum kvöldverði eða jafnvel helgarferð til útlanda! Fram að því væri hægt að bjóða uppá nýbakað brauð og ilmandi kaffi að morgni, næsta dag hádegisstefnumót, jafnvel með nesti og borða úti. Það er svo margt hægt að gera.
Þetta er snilldar hugmynd fyrir öll pör, sérstaklega þau sem eru komin með börn eða vinna krefjandi vinnu sem krefst mikillar fjarveru. Í asanum og hraðanum fer sambandið oft á hliðarlínuna. Það þarf að skila af sér verkefni í vinnunni, skutla á æfingar, mæta á mót, halda afmæli og svo veikist allur skarinn. Þá er gott að eiga ákveðinn dag fyrir sig og makann, þar sem hægt er að endurstilla sig, tala saman og njóta aftur samverunnar.
Ekki bara fyrir makann!
Ég var alveg viss um að svona kassi myndi falla vel í kramið hjá 6 ára drengnum mínum svo ég útbjó annan handa honum. Það var ekki lítill spenningurinn sem myndaðist 1. janúar þegar kom tími til að opna fyrsta umslagið! Hann var algjörlega í skýjunum með kassann sinn og finnst æðislegt að hafa eitthvað til að hlakka til í hverjum mánuði.
Ég ætla alveg pottþétt að halda áfram með þessa kassa sem áramótagjöf til fjölskyldunnar á komandi árum, útbúa einn fyrir eiginmanninn og annan fyrir alla fjölskylduna. Á meðan að börnin eru á svona misjöfnum þroska og getustigum verður eflaust stundum sameiginlegt spjald og stundum eitt á mann. Þá væri gaman að taka myndavélina með og útbúa svo myndaalbúm eftir árið sem gaman er að skoða til að rifja upp góðar minningar. Samverustundirnar með fjölskyldunni eru nefnilega bestu stundirnar í lífinu!