Það þarf ekki að vera flókið til að vera gott! Þess þá heldur að það þurfi að vera dýrt. Við ektamaðurinn höfum gaman af því að elda góðan mat, drekka gott vín og eiga saman gott spjall. Reglulega fáum við okkur góða og safaríka steik með almennilegri sósu og öllu tilheyrandi en oft höldum við okkur í einfaldari kantinum og það er sko ekkert síðra. Undanfarið höfum við verið að uppgvöta allskonar sjávarfang og það hefur komið skemmtilega á óvart hvað það er tiltölulega ódýrt. Kræklingur er eitt af því sem verður æ oftar á borðum hjá okkur enda er hann mjög ódýr og svolítið eins og kjúklingur að því leyti að það er hægt að gera nánast allt við hann og hann er alltaf góður! Nýjasta nýtt í kræklingauppskriftaflóru heimilisins er pestókræklingur. Alveg syndsamlega gott en þó verður að viðurkennast að bragðgæði matarins fara algjörlega eftir gæðum pestósins.
Heimatilbúið pestó
Ég geri heimatilbúið pestó, ekki eftir neinni ákveðinni uppskrift heldur bara eftir því sem ég á til hverju sinni. Okkur dugar sá skammtur sem kemst í skálina sem fylgdi töfrasprotanum og því treð ég bara hráefnunum í hana þangað til ég næ góðu bragði. Í þetta skiptið átti ég afgangs basilíku, slatta af klettasalati og auðvitað furuhnetur. Ég setti hálfan hvítlauksgeira og nýrifin parmesanost. Þess að auki fór ofan í skálina slatti af ólífuolíu, smá skvetta af appelsínusafa, salt og pipar.
Eins einfalt og hægt er að vera
Ég sauð tagliatelle og steikti lauk á pönnu með smjöri. Smjörið er nauðsyn fyrir mér, það kemur mun betra bragð af sósunni en ef þú steikir uppúr olíu en þú ræður auðvitað hvað þú vilt. Þegar laukurinn er orðinn mjúkur fer kræklingurinn á pönnuna. Ég kaupi forsoðinn krækling og brýt hálfa skelina í burtu, það er oft fallegra á diski. Þegar kræklinguirnn er orðinn heitur tek ég pönnuna af hellunni, bæti pastanu og pestóinu út í og blanda. Ekki flóknara en þetta og maturinn er til! Þetta ber ég fram með hvítlauksbrauði og góðu víni.