Mér finnst alveg einstaklega leiðinlegt að þrífa og taka til. Heimili mitt ber þess samt yfirleitt ekki merki, ég reyni að taka til jafnóðum, þrífa þegar þarf, vaska strax upp eftir matinn og svo framvegis. En draslið á það til að safnast upp hjá einstæðri tveggja barna móður í fullu háskólanámi og það kemur fyrir að það virðist óyfirstíganlegt, manni fallast gjörsamlega hendur og nennir engan veginn að koma sér í gírinn og fara að taka til, hvað þá í góðu veðri.
En þá er gott að eiga playlista! Ég fór á www.youtube.com og bjó mér til playlista sem heitir einfaldlega „Tiltekt“. Mér finnst þetta nefnilega svo leiðinlegt að ég þarf alveg að undirbúa mig andlega fyrir þrifin. Mæli með þessu. Það er hægt að skrá sig á youtube ef maður er með netfang hjá Gmail. Mig langar að sýna ykkur minn playlista. Það sem mér finnst mikilvægast er að hafa lögin hress, taktföst og geta sungið með, ég elska að syngja.
Listinn byrjar reyndar á frekar rólegu lagi með Mugison – Gúanó stelpan.
Meðan það lag rúllar byrja ég að opna alla glugga, opna út á svalir og svo tek ég eitt rými í einu (gefandi okkur það að allt sé á hvolfi).
Ég byrja í forstofunni. Set alla skó inn í skáp, yfirhafnir, húfur, vettlingar, allt á sinn stað. Þá er Mugison búinn að ljúka sér af og þá tekur Bruno Mars við, The Lazy Song. Þetta lag hefur nefnilega þveröfug áhrif, miðað við hvað titillinn gefur til kynna. Ég kemst alltaf í fíling við þetta lag.
Þá fer ég eins og stormsveipur um íbúðina og tek saman allt rusl og hendi því, allan óhreinan þvott og set hann í körfur og stekk út með ruslið og í þvottahúsið og hendi í vél.
Þá er komið að því að taka til í barnaherberginu. Þá er ég orðin pínu sveitt og langar að dilla mér almennilega. Að týna saman kubba og raða saman púslum getur verið hin fínasta skemmtun með Wild Cherry – Play That Funky Music.
Skipti líka um á rúmunum og bý um og þá er komið að uppvaskinu. Eins og þið vitið þá er ekki mikið „action“ í uppvaski, maður stendur jú bara á sama stað og vaskar upp. Frekar einhæft og leiðinlegt. En þá er bara að hlusta á hana Emilíönu Torrini syngja Jungle Drum, dilla sér og syngja nógu hátt með!
Ef það er mikið uppvask þá tekur Bonnie Tyler við, ekki slæmt að syngja um hetjuna í lífi sínu á meðan uppþvottalögurinn freyðir.
Meðan síðustu tónar Bonnie óma fer ég í að vinda tuskuna og þurrka af. Ef ég er í stuði tek ég jafnvel fram ofurhreinsispreyið og þríf barnastólana hátt og lágt og þá dugar ekkert minna en Scissor Sisters – I Don‘t Feel Like Dancing.
Ég er ekki í það stórri íbúð að ég er ansi fljót að klára svo rest, sem er að moppa yfir allt og skúra svo. En þá er kominn leiði í mig og ég nenni ekki meir. Þá kemur eitt af mínum nýju uppáhaldslögum, We Found Love – Rihanna og ég finn nennuna á ný!
Að sjálfsögðu setja svo LMFAO lokahnykkinn á þetta, íbúðin að verða hrein, ég orðin sveitt en ánægð með verkið, á bara eftir að klára að skúra og fara svo í góða sturtu og þið vitið það.
Góða skemmtun!