Heimilisverkópóló

Ég hef lengi barist við það að fá aðra á heimilinu til að átta sig á því að það er gott að vera í hreinu og fínu húsi.
Börnin mín virðast una sér best með allt dótið sitt í stofunni, matinn á gólfinu, fötin út um allt og mömmu sína galandi um allar trissur.

Við foreldrarnir tókum málin því í okkar hendur og útbjuggum leik fyrir heimilismeðlimi. Við settumst niður eitt kvöldið með hvítt í glasi og teiknuðum upp töflu þar sem við listuðum hvert og eitt heimilisverk sem þurfti að framkvæma á heimilinu. Það voru t.d verk eins og að skúra gólf, þrífa spegil inn á baði, laga til í herbergi, skipta á rúmum, þrífa ofninn og svo framvegis.

Við gáfum svo hverju heimilisverki stig eftir erfiðleika þannig að sópa yfir gólf var kannski 2 stig en að skúra væri 5 stig. Þrífa baðkarið var einnig 5 stig, sem og að skipta á rúmi. Þannig fengum við börnin til að keppast um að gera “erfiðu” verkin því þau gáfu mest stig.

Svo voru nöfn heimilismeðlima skrifuð á blað og í hvert skipti sem einhver gerði eitthvað heimilisverk þá fékk hann þau stig sem við átti. Einhver annar heimilismeðlimur varð þó að kvitta fyrir stigunum svo að ekki væri hægt að svindla.
Sá sem hefur flest stig í vikulok fær fyrirfram ákveðin verðlaun. Verðlaunin voru eins ólík og heimilismeðlimir; nudd frá maka, fá að taka bækur á bókasafninu, fá að fara í bíó og svo frameftir götunum.

Spilið hlaut nafnið “Heimilisverkópóló.”

Í dag eru herbergi barnanna alltaf hrein, hægt er að borða upp úr klósettinu (sem þessi yngsti reynir reglulega) og það er engin skrítin lykt í ísskápnum! Eða þú veist, svona næstum því. Okei eiginlega ekki, en þetta virkar samt!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.