Krums!

Það er fátt eins gott með morgunmatnum og heimagert músli. Á mínu heimili kallast þetta krums og mamma hefur gert svona alveg frá því ég man eftir mér og það er alltaf jafn gott! Börnin mín elska þetta og í gegnum tíðina hef ég aðeins leikið mér með uppskriftina þó mömmukrums standi ennþá fyrir sínu. Þetta er hollt og gott, hvort sem er útá súrmjólk, jógúrt eða bara með venjulegri mjólk eins og morgunkorn.

Síðasti skammtur sem ég gerði var svona:

2 bollar haframjöl

2 bollar tröllahafrar

1 bolli kókosmjöl

1 bolli sólblómafræ

1/4 bolli graskersfræ

1/4 bolli hörfræ

1/4 bolli sesamfræ

1 bolli púðursykur

1/2 bolli vatn

1/2 bolli olía

Sjóðið vatn, olíu og púðursykur saman í potti.

Setjið allt hitt í ofnskúffu.

Hellið sykurvatninu yfir mjölið og blandið vel saman.

Bakað við 125 gráður í 70-80 mínútur. Það þarf að hræra vel í blöndunni á c.a. 20 mínútna fresti svo hún þorni jafnt og vel.

Krumsið er einstaklega gott nýbakað, beint úr ofninum með mjólk!

Stundum set ég þurrkaða ávexti útá, apríkósur eru uppáhaldið hjá börnunum og af og til fær smá dökkt súkkulaði áð fljóta með, svona spari.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.