Það er rigningarhelgi í borginni. Mér finnst dásamlegt að reka alla fjölskylduna út á svona dögum og njóta þess að hjóla með dropana í andlitinu eða hoppa í pollunum. Mér finnst reyndar skrítið hvað börnin mín hafa lítinn áhuga á pollahoppi, þetta var eitt að því skemmtilegasta sem ég gerði þegar ég var barn. Mér finnst þó nauðsynlegt að eiga eitthvað í pokahorninu fyrir þá daga sem veðrið er ekki uppá sitt besta. Verum hreinskilin – það þarf ekki nema smá golu hér á landi og þá er rigningin orðin að slagveðri! Ég hef gert það nokkrum sinnum að safna í föndurhornasarpinn þegar ég fer með krakkana í göngutúra, það er svo margt til í náttúrunni sem hægt er að nota í hin skemmtilegustu föndurverkefni.
Fjörugersemar
Þegar ég var barn voru fjöruferðir fastir liðir á fjölskyldudagskránni og þar fundum við systurnar oftar en ekki gersemar sem aðrir álitu annað hvort rusl (kannski af því að oft var þetta rusl) eða ekki þess virði að taka eftir. Íslenskar fjörur eru fullar af skeljum, steinum, slípuðum glerbrotum og öðrum fjársjóði. Þegar ég fer í fjöruferð með börnunum mínum hef ég yfirleitt með mér smá poka til að geyma gersemarnar í og þegar heim er komið fara þær í föndurskúffuna. Á rigningardögum, veikindadögum eða bara þeim dögum sem okkur langar að vera inni er hægt að draga þetta fram og gera allskonar skemmtilega hluti. Það er hægt að líma saman steinana og mála á þá; tröllskessur, hús, bílar, flugvélar. Hugmyndaflugið er það eina sem stoppar! Eins má gera það sama við skeljarnar, þær má mála og skreyta með glimmer og annars konar fallegu skrauti. Það er líka hægt að líma þær innan í djúpa ramma og þá ertu komin með ágætis gjafir til handa ömmum og öfum sem sjá ekkert fallegra en föndurverkefni barnabarnanna. Ef ykkur finnst kræklingur góður þá þarf ekki einu sinni fjöruferð til, bara rúntur í næstu matvörubúð þar sem hægt er að fá krækling á góðu verði og svo fá börnin að eiga skeljarnar.
Hugað að jólum
Grenikönglar eru dýrmætir á mínu heimili og það er alltaf skemmtilegt að fara út í göngutúr til þess eins að tína köngla. Það má safna dágóðum slatta á stuttum tíma og eiga inní skáp. Þegar líður á haustið eru könglarnir dregnir fram og skemmtilegar jólaskreytingar eru galdraðar fram. Það má búa til allskonar jólakalla, engla, óróa, jólaþorp, jólatré og fleira skemmtilegt úr þeim. Hafðu þetta í huga þegar líður að haustinu, því það kostar ekkert að fara í göngutúr og tína köngla en oft eru þeir seldir dýrum dómi í föndurverslunum.
Dansað í stofunni
Innistundir þurfa ekki endilega að vera í ró og næði við borðstofuborðið og allir að föndra. Við fjölskyldan höldum stundum danskeppni! Já sæll og góðan daginn og allir skemmta sér vel. Ekki gleyma að hafa kveikt á vídjóvélinni, þetta eru ómetanleg myndbönd þegar árin líða. Þá erum við komin að öðru skemmtilegu sem allar fjölskyldur þurfa að gera reglulega og það er að horfa saman á fjölskyldumyndböndin, rifja upp góða tíma og skellihlægja.
Pappahús
Það er eitt sem mig hefur oft langað að prófa en ekki enn lagt í og það er að búa til hús úr pappakössum, sem hægt er að nota í skemmtilegum leikjum. Ef þið munið eftir Leikfangasögu 1, þá er í byrjun myndarinnar sýnt frá Adda, eiganda leikfanganna, í hasarleik og umgjörðin er gerð úr pappakössum. Þetta er svo ótrúlega einföld og skemmtileg hugmynd sem tekur enga stund í framkvæmd. Bara teikna hurðar og glugga á litla pappakassa og skera út.