Eins dásamlegt það er að fara í smá dekur á snyrtistofu þá hef ég hvorki tíma né fjárráð til þess að fara þangað reglulega. Ég hef ekki sagt skilið við vinkonur mínar snyrtifræðingana en á undanförnum árum hef ég þurft að hagræða aðeins og þar með draga úr snyrtistofuferðum. Ég hef orðið þeim mun duglegri að dekra við mig heima í staðinn.
Kaffi og sturta á eftir!
Þrátt fyrir að ég hafi aldrei verið dugleg að fara í líkamsskrúbb á stofu þá er þetta eitthvað sem allir fræðingar í bransanum telja mikilvægt og ég hef samviskusamlega skrúbbað húðina frekar reglulega. Myndi maður ekki annars telja einu sinni til tvisvar á ári reglulegt? Stóra og dýra kremdollu með rosalega fínum kornamaska hef ég þó alveg sloppið við að kaupa eftir að ég komst að því að snyrtifræðingurinn minn notaði sjálf venjulegan kaffikorg til verksins! Kaffikorgur og matarolía blandað saman er hið fínasta skrúbb og ef þú skrúbbar þig í sturtunni þá er þetta ekkert subbulegt því það rennur niður í niðurfallið hvort eð er. Prófaðu að hella þér upp á góðan kaffibolla og geyma korginn í glerkrukku, inni í ísskáp þangað til dekurtími gefst.
Þvottapoki á andlitið
Annað sem ég heyrði og hef sjálf notað síðan með góðum árangri, er að nota gróft handklæði til að skrúbba andlitið í stað þess að nota til þess kornamaska. Það á víst að hafa sömu áhrif og kostar ekki neitt! Núna geri ég þetta reglulega, annað hvort tek ég þvottapoka og skrúbba af dauðar húðfrumur með honum eða geri þetta þegar ég er nýkomin úr sturtunni með handklæðinu.
Gúrkan til margra hluta nýtileg
Ef þig vantar góðan andlitsmaska þá mæli ég með heimatilbúnum gúrkumaska, sérstaklega ef þú ert þrútin og rauð eftir góðan dag í sólinni eða skemmtilegt kvöld með vinafólki þar sem þú kannski fékkst þér aðeins fleiri glös en til stóð. Gúrkan er sérstaklega kælandi og þú ættir að sjá mun strax. Ég veit um eina óheppna brúður sem sólbrann illa nokkrum dögum fyrir stóra daginn og þetta ráð hjálpaði mikið til. Gúrkumaskinn er ekki flókinn, bara gúrka maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota.
Ég hef ekki lagt í það að gera mér andlitsmaska úr þeyttum eggjahvítum eða álíka en ég kaupi mér oft maska í bréfum sem eru seld bæði í matvörubúðum og apótekum á nokkra hundraðkalla. Þeir eru fínir til síns brúks og ég reyni alltaf að eiga einn eða tvo heima við svo ég geti skellt þeim á mig þegar þörfin kallar.
Gamla góða vaselínið
Vaselín er til margra hluta nýtilegt og eftir að börnin mín hættu að fá skán í hársvörðinn (nudda með vaselíni og strjúka það svo í burtu með mjúkum þvottapoka) hef ég notað vaselínið sem augnfarðahreinsi. Ég er með mjög þurra og viðkvæma húð, sérstaklega í kringum augun og venjulegir augnfarðahreinsar eru oft aðeins of sterkir fyrir mig og ég fæ oft sár undan þeim. Vaselínið hefur haft góð áhrif á húðina og fjarlægir maskarann nokkuð vel. Ég nota vaselín líka mikið sem handáburð, þá ber ég oft á vel á hendurnar rétt áður en ég fer að sofa (og jafnvel fæturna líka) og vakna silkimjúk morguninn eftir.