Stundum opna ég ísskápinn og það er bara ekkert til. Samt er einhvern veginn ekki pláss fyrir svo mikið sem eitt skinkubréf til viðbótar. Í gær tók ég áskoruninni og það var ekki máltíð af verri endanum sem rataði á diskana.
Ég byrjaði á því að týna grænmetiskostinn til, hann var nú óvenju fátæklegur en 1/2 haus af brokkolí og 1/2 haus af blómkáli varð að duga. Grænmetið er skorið gróft og sett í smurt eldfast mót.
Ég hafði tekið fisk úr frystinum daginn áður og fannst tilvalið að nota hann í réttinn. Ég roðfletti, beinhreinsaði og skar í bita og kryddaði svo létt yfir fiskinn með salti, pipar, hvítlauk og karrý.
Leggið fiskinn svo ofan á grænmetið.
Leynitrikkið við að klæða hráefnin í sparifötin eru rjóminn og osturinn. 1/2-1 dolla af smurosti (ég notaði nýja TexMex frá MS) og ca. 250 ml af matreiðslurjóma sem er hitað saman í potti þar til smurosturinn bráðnar. Hellið sósunni yfir gumsið í eldfasta mótinu. Til hátíðabrigða má jafnvel setja rifinn ost ofan á.
Skellið í ofn við 200°C í ca. 20-25 mínútur og berið fram með kartöflum, grjónum eða brauði.
Njótið!