Ég hef lengi haft áhuga á kökuskreytingum og eftir að börnin fóru að gera vart við sig í þessum heimi þá hef ég alltaf haft mikinn metnað fyrir afmælum og allskonar kökuskreytingartilefnum. Það vill þó yfirleitt þannig til að ég er á síðustu stundu með allt saman og get engan veginn gefið mér þann tíma sem ég myndi vilja í að gera flottar og ógleymanlegar kökur. Þrátt fyrir skort á tíma í skipulaginu mínu þá hef ég komist upp á lagið með að gera einfaldar og skemmtilegar skreytingar og ég hef náð að sannfæra sjálfa mig um að einfalt geti líka verið nokkuð flott, hvort sem það er á muffinskökum eða þessum venjulega stóru.
Ég hef þó komist upp á lagið með nokkur atriði sem hjálpa mér töluvert með tímann, þ.e. að spara hann svo ég geti nýtt hann betur í annað. Það getur verið fljótlegra að baka muffinskökur og skreyta þær en að gera heila stóra köku með miklum smáatriðum sem taka mikinn tíma. Þegar ég geri muffinskökur þá er ég mun fljótari að skella deiginu í rjómasprautuna gömlu og góðu (ekki þessa nýtískulegu með gashylkjunum, það getur ekki endað vel!) og sprauta deiginu í formin. Þá set ég frekar lokaðan stút á sprautuna og klæði könnu með sprautupokanum svo hann haldist vel opinn. Þegar allt er komið ofan í tek ég stútinn af og nota bara skrúfstykkið, þá rennur þetta ljúflega ofan í formin.
Þegar ég skreyti kökurnar þá hef ég líka komist upp á lagið með að nota aðferð sem var sýnd á vinsælu myndbandi í vetur og gekk manna á milli á facebook. Þá set ég kremið á plastfilmu og set það þannig ofan í sprautupokann. Toga svo endann á plastfilmunni út í gegnum stútinn og klippi af filmunni.
Þegar ég er svo búin að skreyta þá er sprautupokinn hreinn og fínn og ég þarf ekki að þrífa hann. Þrif á sprautupokanum finnst mér nefnilega alveg rosalega leiðinleg, þó ég sé enga stund að því ef ég sný honum við og treð honum á tveggja lítra gosflösku. Þá get ég skrúbbað pokann vel að innan og hann þornar líka fljótt á flöskunni.
Ég ætla mér oft stóra hluti þegar kemur að kökuskreytingum en þegar á hólminn er komið gengur það ekki upp og ég enda með eitthvað ofureinfalt. Hingað til hefur það tekist vel og öll afmælisbörnin hafa verið sátt.