Grjónagrautur er örugglega uppáhaldsmaturinn hjá börnunum á þessu heimili. Stundum á föstudögum höfum við grjónagraut í matinn fyrir þau og þegar þau eru farin í háttinn eldum við hjónin eitthvað flott handa okkur og opnum jafnvel eina flösku með. Á laugardagsmorgninum er svo tilvalið að nota afganginn af grautnum og steikja ekta gamaldags lummur ofan í liðið. Það er eðal byrjun á helginni og slær alltaf í gegn!
Lummur:
1-2 bollar hveiti
¼ bolli sykur
1 tsk lyftiduft
½ tsk salt
1 1/2 bolli grjónagrautur
1-2 tappar vanilludropar
1-2 egg
60gr bráðið smjör
mjólk
Öllu hrært saman og mjólk bætt útí þangað til þykktin er orðin hæfileg.
Lummurnar eru svo steiktar á pönnu uppúr smjöri og sykraðar.

Verði ykkur að góðu!