Latur kvöldmatur

Stundum nenni ég engu, sértaklega ekki að elda kvöldmat. Þó ég elski að eyða löngum stundum í eldhúsinu þá koma þær stundir sem mig langar mest af öllu að henda mér í sófann, hafa súkkulaði í kvöldmat og horfa á stelpumyndir. Þar sem ég á lítil börn sem heimta athygli, kvöldmat og góðar stundir er það ekki í boði. Þá geri ég stundum sætkartöflu- og gulrótarsúpu. Ég á venjulega öll innihaldsefnin og þarf því ekkert að skjótast í búðina með tilheyrandi tímaeyðslu (að ég tali nú ekki um annarskonar eyðslu!). Að auki á ég oft margt af því sem fer í súpuna niðurskorið og tilbúið í ísskápnum, eins og kom fram hér. Súpan er einföld, fljótleg, stútfull af næringu og frekar ódýr. Alveg eins og ég vil hafa letikvöldmatinn. Aukalega ber ég fram leti-pizzafingur. Það er ótrúlegt að eitthvað svona ótrúlega einfalt getur verið svona ótrúlega gott.

Súpan

Tvær stórar sætar kartöflur
4-5 gulrætur
1/2 rauðlaukur (eða heill lítill)
3-5 hvítlauksgeirar
1 tsk túrmerik eða karrý
1 tsk paprikukrydd
Vatn, þannig að það fljóti vel yfir allt í pottinum
Appelsínusafi ef vill
Salt og pipar

Laukur og hvítlaukur steiktir í smá stund í potti, ásamt túrmerik og paprikukryddi. Kartöflum og gulrótum bætt útí og steikt í stutta stund. Vatni bætt útí þannig að það fljóti vel yfir allt í pottinum. Soðið þar til allt í pottinum er lungnamjúkt. Ég kæli í stutta stund og læt þá töfrasprotann vinna fyrir laununum sínum. Sumir vilja bæta appelsínusafa út í á þessu stigi og ég geri það alveg ef ég á hann til en hann hefur ekki úrslitavald þegar kemur að bragðinu. Ég salta og pipra þegar mér dettur í hug. Ég nota minna en meira af salti en það sama gildir ekki um piparinn.

Latir pizzafingur

Venjulegt brauð
Pizzasósa
Ostur

Sósan smurð á brauðið, ostur ofan á og inn í ofn. Þegar osturinn er orðinn gullinn þá er þetta til, svo sker ég þetta niður í strimla. Ein brauðsneið í þrjá strimla.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.