Gæðastund gyðjunnar í morgunsárið

Þegar morgunskíman þig vekur, hví ekki að tipla á tánum fram & sjá hvað á móti þér tekur. Það gerði ég í morgun.

Ég vaknaði fyrir allar aldir. Húsið var hljótt, maðurinn og barnið steinsofandi og ég glaðvöknuð. Vorið liggur í loftinu og sumarið handan við hornið. Allt í einu eru skilin á milli dags og nætur orðin svo miklu skarpari. Það gleður mig og fyllir mig af orku og innblæstri.

Ég skellti mér náttsloppinn, skvetti kaldri vantsgusu framan í mig og tiplaði fram í eldhús. Þar tók á móti mér espresso-vélin mín fagra og “hafraklattar gyðjunnar”. Mikið var ég glöð að hafa skellt í eina uppskrift áður en ég lagðist á koddann í gærkvöldi.

Það var yndislegt að næla sér í smá “me time” í morgunsárið. Ég settist niður með brakandi ferskann hafraklatta, rótsterkt kaffið og nýja glanstímaritið sem læddist inn um lúguna í gær. Dagblöðin mega bíða þar til á eftir. Þetta er mín gæðastund og hennar er best notið með “feel good” greinum og fallegum og vorlegum myndum á glansandi pappír.

Eftir þennan morgun líður mér eins og nýplokkuðu jarðarberi og ég er tilbúin inn í daginn og miklu meira en það!

Við gyðjurnar mælum með því að aðrar gyðjur næli sér í sem flestar gæðastundir með sjálfri sér, það gerir okkur svo gott og við gyðjumst allar upp.

Gyðjukveðjur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.