Ég á mjög erfitt með að fylgja uppskriftum. Það er mér eiginlega ómögulegt. Í langan tíma langaði mig til þess að elda indverskan rétt, en ég treysti mér ekki í það af því að ég hafði enga tilfinningu fyrir því hvað ég væri að gera. Þekkti ekki kryddin eða hlutföllin og vissi ekkert hverju ég gæti bætt út í réttinn eða hverju ég gæti sleppt.
Eftir að vera búin að melta þetta í svolítinn tíma ákvað ég að búa til mina eigin uppskrift og skrifa hana niður á meðan ég bjó réttinn til. Ég gæti svo betrumbætt hana næst. Ég fékk fjölskyldumeðlimi til þess að dæma herlegheitin og niðurstaðan var sú að hann er fullkominn! Við elskum þennan rétt og hér ríkir alltaf veislustemmning þegar hann er borinn á borð.
Kryddin:
1 tsk chili paste
1 tsk hvítlaukspaste
1 tsk engifer paste
1 tsk garam masala
1 tsk cumin
1 tsk kóríander
1 tsk curry powder
1 tsk paprika
smá fenugreek
smá ground mustard
smá cayenne pipar
salt og pipar ef vill
Þetta er bara viðmið, það má alveg sleppa einhverjum kryddum (t.d. fenugreek og ground mustard), en sum finnst mér ómissandi (eins og garam masala) og það má breyta magninu á kryddunum eftir því í hvernig stuði maður er þann daginn.
Jógúrt – a.m.k. ein lítil dolla (180gr) en það má alveg nota meira.
5 stk kjúklingabringur (eða 4 eða 6)
2 laukar
3 stór hvítlauksrif
1 dós tómatar
3 1/5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
5 msk Pataks mild curry paste og/eða tandoori paste (gott að nota þetta í bland)
ferskt kóríander
olía
smjör
Aðferð:
Skerið kjúklinginn í bita og léttsteikið í smjöri og olíu. (má sleppa því að steikja hann)
Blandið jógúrtinu og kryddunum saman í skál og skellið kjúklingabitunum þar ofan í og látið liggja í smá tíma.
Saxið laukinn og hvítlaukinn og steikið í olíunni og smjörinu í c.a. 3 mínútur. Bætið svo kjúklingnum og jógúrtsósunni útí og steikið í c.a. 7-10 mínútur.
Setjið tómatana, rjómann, pasteið og hluta af ferska kóríanderinu útí og látið malla í c.a. 40-60 mínútur.
Stráið fersku kóríander yfir og berið fram með naan brauði, raita og hrísgrjónum.
Raita
1 stór dós grísk jógúrt
1 agúrka
smá hvítlaukur, smátt saxaður
salt og pipar
cayenne pipar og cumin, c.a. 1/2 tsk af hvoru
ferskt kóríander eða mynta
lime eða sítrónusafi ef vill
Afhýðið gúrkuna og takið kjarnann úr. Saxið eða rífið gúrkuna í skál, saltið og látið standa í 15 mínútur. Skolið saltið af undir vatnsbunu og hristið vatnið af.
Blandið öllu saman í fallega skál.
Naan brauð
200 ml mjólk
2 msk sykur
1 pakki þurrger
600 gr hveiti
1 tsk salt
2 tsk lyftiduft
4 msk olía
1 dós hreint jógúrt (u.þ.b. 180 gr)
Krydd:
1-2 msk Maldonsalt
1-2 msk indversk kryddblanda (t.d. garam masala eða eitthvað gott krydd sem ykkur dettur í hug)
100 gr smjör
2-3 hvítlauksrif, smátt söxuð
Setjið ger og sykur saman í skál og hellið volgri mjólk yfir. Látið standa í 15 mínútur. Blandið síðan hveiti, salti, lyftidufti, olíu og jógúrti saman við germjólkina. Látið deigið hefast í skál í 1 klst. við stofuhita. Hitið ofninn í 275°C eða 210-220°C blástur. Skiptið deiginu í 10-12 hluta og hnoðið kúlur úr þeim. Fletjið síðan kúlurnar út nokkuð þunnt. Setjið salt og garam masala á þau. Raðið brauðunum á plötu sem er klædd bökunarpappír og bakið þau í 5-7 mín. Þið getið líka bakað þau á efri grind á gasgrilli.
Bræðið svo smjörið og látið hvítlaukinn úti. Þegar brauðin eru komin úr ofninum þá skal setja smjörblönduna ofan á heit brauðin.
Brauðin eru best heit.
Verði ykkur að góðu!