Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af hafraklöttum, þeir eru ótrúlega fljótlegir í bæði undirbúningi og bakstri! Og eru líka alveg ótrúlega bragðgóðir.
Hráefnið er eitthvað sem er nánast alltaf til á öllum heimilum, börnin elska þetta í nesti í skólann, karlinn í vinnuna og ég narta í þetta meðan ég elda matinn. Svo má auðvitað bjóða gestum upp á klattana.
Til að byrja með blöndum við eftirfarandi í skál (blanda A):
240 gr mjúkt smjör
1/2 bolli sykur
1 bolli púðursykur
2 tsk vanillusykur eða vanilludropar
2 egg
Öllu þessu er hrært saman í hrærivél!
Í aðra skál blöndum við svo eftirfarandi saman (blanda B):
160 gr hveiti
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1/2 tsk kanill
Að lokum er A og B blandað saman. Nú er þetta orðið að myndarlegu deigi en það vantar enn allt góða gúmmelaðið.
Í upphaflegu uppskriftinni er bætt við 3 bollum af haframjöli og 200 gr af rúsínum. Ekki skal minnka haframjölið en rúsínum má sleppa eða skipta út fyrir súkkulaði, fræ, kókos eða hverju sem ykkur dettur í hug.
Búið til litlar bollur (rúmlega matskeið) og fletjið örlítið
Klattarnir eru svo bakaðir við 180°C á blæstri (annars 200°C) í 8 mínútur. Klattarnir þurfa að kólna í dálitla stund áður en þeir eru borðaðir með bestu lyst.
Verði ykkur að góðu!