Flestir sem eiga ung börn hafa heyrt talað um úlfatímann, en það er einmitt tíminn á milli 17 og 20 þegar flestir heimilismeðlimir eru heima. Það er þó yfirleitt enginn slökunartími; foreldrarnir voru að klára vinnudaginn, búið er að sækja eitt barnið til dagmömmunnar, hitt á leikskólann og svo er það skutlið í tómstundir með eldri börnin. Talaði einhver um að undirbúa matinn? Er eitthvað til í ísskápnum? Svo má ekki gleyma að skipuleggja næsta dag og muna eftir öllu sem þarf að muna.
Ég sjálf hafði aldrei upplifað þennan úlfatíma þó ég ætti tvö börn. Þau voru einhvern veginn hugljúfi hvers manns og það eina sem kom í veg fyrir stórglæsilegar kvöldmáltíðir var metnaðar- og tímaleysi húsmóðurinnar.
En tímarnir eru breyttir, við bættist þriðja barnið. Frekara barn finnst líklega ekki á mörgum heimilum og honum finnst ekkert leiðinlegra en að leika sér sjálfur. Já hann er prins og vill láta sinna sér þannig!
Í gær sat ég við matarborðið og þegar kvöldmaturinn var að klárast og hugsaði, jáhh þetta er þessi margumtalaði úlfatími, hreinlega allt í uppnámi einhvern veginn!
Rifjum aðeins upp hvernig þetta byrjaði:
Húsmóðirin var sótt í vinnuna kl. 18:30 og þá var brunað heim. Kvöldmatur? Jú eiginmaðurinn hafði farið í búð og keypt tilbúinn grjónagraut, fyrsti vinnudagur vikunnar er oft svona og þá er það skyndilausnin sem blívar! Hin svokallaða húsmóðir lá í sófanum með flensubyrjun og þóttist ekki geta hreyft sig. Sem betur fer er húsfaðirinn með þeim duglegri og reddaði málunum. Svo heyrist kallað úr eldhúsinu ,,hvernig á ég að sjóða egg?“. Einu sinni er allt fyrst og eggjasuðan lukkaðist fullkomlega. Minnsta prinsinum var réttur grjónagrautur í skál, hann varð voða glaður. Maðurinn hélt áfram að elda, húsmóðirin stundi og stumraði en reyndi að gera smá gagn. Obbobb, minnsta prinsinum fannst sniðugt að gera listaverk úr grjónagrautnum sínum, afskiptalaus í 3 mínútur og grauturinn þakti 80% af eldhúsborðinu! Kæfubrauðið hafði líka fengið að nuddast í hárið! Hann var að sjálfsögðu alsæll með þennan árangur á nýjum mettíma!
Á ég bara eitt barn? Nei hin tvö voru þarna líka! Miðbarnið, orkuboltinn og átvaglið, spurði pabba sinn ,,pabbi, eru eggjahvítur eða eggjarauðan hollari?“ Eggjahvítan sagði pabbinn, og meðan við hin vorum að borða grjónagrautinn tókum við allt í einu eftir að drengurinn var með eggjahvítu á brauðinu sínu sem átti að duga öllum heimilismeðlimum. Við máttum víst fá rauðuna! Mamman hafði ekki orku í að æsa sig og hló inni í sér! Pabbinn var ekki glaður, hann átti eftir að fá sér eggjabrauð. ,,Langar einhvern í meiri grjónagraut?“ heyrðist frá elsta barninu sem elskar grjónagraut! ,,Já elskan, það eiga fleiri eftir að fá sér“ sögðu foreldrarnir samróma. Litla dýrið nennir ekki að sitja lengur við borðið, hann reynir að rífa sig úr barnastólnum og öskrar.
Hann sigrar alltaf, hann er látinn á gólfið og auðvitað finnur hann sópinn til að leika sér með, jæja hann þegir á meðan. ,,Langar einhvern í meiri grjónagraut?“ heyrist aftur. ,,Já elskan, mamma þín á enn eftir að fá sér!“. Miðbarnið er orðið uppfullt af orku eftir allar eggjahvíturnar og er hlaupið út að sippa, litla dýrið reynir að elta. Þrýstingurinn á pabbanum er í hámarki og hann stekkur upp, heldur að sá minnsti hafi sloppið út líka. En svo var ekki, hann bara dreifði rusli og var nálægt því að rústa öllu punti sem eftir er sveiflandi sópnum! ,,Langar einhvern í meiri grjónagrjót?“ heyrist í þriðja sinn …. ,,já já fáðu þér bara meira!“. Foreldrarnir andvarpa og spyrja sig hvort háttatími sé ekki á næsta leyti.