Eftir því sem börnunum fjölgar virðist sem klukkustundunum í sólahringnum fari fækkandi. Að því sögðu þá hefur tímasparnaður orðið eitt af mínum aðaláhugamálum. Ég er stanslaust að reyna að finna nýjar leiðir til að spara okkur mikilvægan tíma og þar með græða mikilvægan tíma. Eftir margar andvökunætur þar sem ég fer aftur og aftur yfir atburði dagsins hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég get helst sparað tíma í kringum máltíðir. Ég eyði gríðarlegum tíma í eldhúsinu. Vaska upp, ganga frá, þurrka, raða, skera grænmeti/ávexti, þrífa ísskáp/eldavél, elda mat, undirbúa snarl. Kannist þið við þetta? Á meðan ég er í eldhúsinu eru börnin að gera eitthvað annað og skemmtilegra sem ég myndi oft vilja fá að vera með í.
Að vinna sér í haginn
Við erum frekar upptekin fjölskylda, báðir foreldrar vinna mikið og oft á kvöldin. Börnin eru í allskonar tómstundum og þess á milli er húsið fullt af lánsbörnum. Þess vegna er mikilvægt að ég nái að vinna mér í haginn.
Þegar krakkarnir koma heim vilja þau oft fá smá snarl og mér finnst mikilvægt að snarlið sé af grænmetis- eða ávaxtaættinni. Það getur þó verið tímafrekt að skera niður allt sem þarf að skera, þvo og ganga frá. Það sem ég hef vanið mig á núna er að skera niður alls konar grænmeti og ávexti á kvöldin og það er svo geymt í vel lokuðum ílátum í ísskápnum, tilbúið fyrir óþolinmóða fingur. Mér finnst oft gott að eyða sunnudagskvöldi í þetta, það er eins og það sé fyrirboði um góða viku ef ég get gefið mér tíma til að undirbúa hana strax. Þetta finnst mér sérstaklega mikilvægt ef það lítur út fyrir að mikið verði að gera í vikunni sem framundan er.
Ég sker ekki bara niður ávexti og grænmeti til að eiga fyrir snarl. Ég geri matseðil fyrir hverja viku og ef ég er með rétti sem innihalda mikið af grænmeti þá reyni ég að vera búin að vinna mér í haginn með því að skera niður það sem geymist vel (mundu að ef vikan er annasöm framundan þá skaltu halda þig við uppskriftir sem þú hefur gert oft áður og þekkir vel). Þið haldið kannski að ég sé marga klukkutíma í eldhúsinu á sunnudagskvöldum en það er ekki svo. Matvinnsluvélin mín sér um ansi margt af þessu fyrir mig. Papríkur og lauk má skera í vélinni og bæði geymast vel í þéttum ílátum í ísskápnum, í einhverja daga. Gúrkur og tómatar halda sér líka ágætlega niðurskorið. Með þessu spara ég mér bæði undirbúningstíma þegar líður að kvöldmatartíma sem og frágangstíma því uppvaskið minnkar til muna (já – ég á ekki uppþvottavél!).
Baksturinn
Mér finnst gaman að fá vini barnanna minna í heimsókn og vil gera vel við þau öll í mat og drykk eftir ærslafullan leik í garðinum eftir skóla. Nýbakað bakkelsi slær alltaf í gegn og þar er ég lika búin að sjá við tímaþjófinum atarna! Ég gef mér reglulega tíma til að blanda þurrefnum hverrar uppskriftar fyrir sig í poka og þannig er ég búin að búa mér til heimatilbúið Betty Crocker deig! Hver poki er merktur með uppskrift, dagsetningu og því sem á að bæta útí. Ekki gleyma bökunarleiðbeiningum. Þetta tekur mun minni tíma en þú heldur og þegar til kastanna kemur þarftu ekki að draga fram mælitæki og vog, eða ganga frá eins miklu. Þú getur verið með tilbúið vöfflu- eða pönnukökudeig, skúffukökudeig, muffinsdeig. Nefndu það og það er örugglega hægt!
Gerum leik úr þessu
Annað sem ég geri mikið af er að elda mjög stóra skammta og frysta afganginn. Best finnst mér að gera mikið af góðri súpu og frysta í einstaklingsskömmtum. Þegar súpuskammtarnir eru orðnir nokkrir og fjölbreytilegir þá er súpukvöld hjá okkur með heimabökuðu brauði. Börnunum finnst spennandi að sjá á hvaða súpu þau lenda og ef þeim líkar ekki það sem þau fá fara skiptin í gang. Manninum mínum fannst æðislegt að fá dýrindis humarsúpu á þriðjudagskvöldi, honum fannst það ennþá meira gaman þegar hann sá að ég hafði fengið brokkolísúpuna sem tókst ekkert sérstaklega vel. Auðvitað merki ég alla skammtana áður en þeir lenda í frystinum, það er samt meira gaman þegar þú færð óvissusúpu og því eiga miðarnir til að hverfa áður en aðrir heimilismenn komast í góssið.
Ameríska leiðin
Ég skoða mikið af bloggum og bandarískar húsmæður sem blogga eru hafsjór af skemmtilegum hugmyndum. Það virðist vera ríkjandi þarna fyrir vestan hjá heimavinnandi húsmæðrum að gera það sem þær kalla ,,freezer cooking“. Þá eyða þær degi í að elda fullbúnar máltíðir og setja beint í frystinn. Ein var svo rosalega skipulögð að hún setti hverja máltíð ásamt meðlæti og sósu í poka, merkti kyrfilega með upphitunarleiðbeiningum og þannig gat hún verið viss um að maðurinn hennar myndi ekki klúðra kvöldmatnum ef hún væri ekki á staðnum. Ég hef ekki enn lagt útí þessa vinnu, mér nægir ennþá að elda stóra skammta og frysta afganginn. Kannski ég prófi einhvern tímann þegar ég sé fram á annasamar vikur hjá fjölskyldunni.