Húsmóðirin veltir fyrir sér…

Jæja, þá eru páskarnir loksins að renna sitt skeið. Svona langt frí er auðvitað kærkomið fyrir fjölskylduna til að rækta sambandið og gera skemmtilega hluti. Það er samt annað sem fylgir páskunum og það er farið að gera mig meira stressaða með hverju árinu. Lokanir verslana!

Ég hefði aldrei trúað því að neysluhyggjan væri drifkrafturinn minn. Ég ólst ekki upp við að hafa verslanir opnar allan sólahringinn. Það var líka hvorki bensínstöð né sjoppa þar sem ég ólst upp. Allar húsmæðurnar voru með fyrirhyggjuna í fyrirrúmi og voru með bæði kistu og búr fulla af mat svo aldrei var skortur á neinu. Allavega ekki því sem fólk þurfti á að halda. Það er nefnilega oft sem ég upplifi skort á ýmsu sem ég þarf engan veginn á að halda.

Ég erfði eitthvað af fyrirhyggjuseminni hennar móður minnar. Þegar hátíðsdagar nálgast er ég venjulega búin að ákveða matseðilinn og búin að versla það sem hægt er að gera með fyrirvara. Þrátt fyrir fyrirhyggjusemina, skynsemina og skipulagshæfileikana tekur neysluhyggjan völdin þegar verslanirnar fara að auglýsa lokun! Skírdagur gekk vel með tilheyrandi útiveru og samveru með börnunum. Ég vissi uppá hár hvaða verslanir lokuðu hvenær en þar sem ég var búin að versla allt sem ég þurfti þá var verslunarferð ekki dagskrá þennan daginn. Dagurinn leið og klukkan tifaði og eftir því sem dró nær lokunartíma fór hjartað að slá hraðar og eirðarleysið gerði vart við sig. Rétt fyrir lokun náði ég að sannfæra mig um að ég þyrfti að fara í búð og þar með var ég rokin. Þegar þangað var komið gat ég ómögulega rifjað upp hvað það var sem mig vantaði svona sárlega. Þannig að ég keypti bara annað páskaegg handa fjölskyldunni. Og smá smotterí meira.

Af því að ég hafði farið í þessa síðbúnu, ónauðsynlegu verslunarferð þá leið mér ágætlega á Föstudeginum langa. Allar búðir lokaðar að ég hélt og við fjölskyldan undum okkur vel, samverustundir og útivera. Þannig eiga páskar að vera. Eftir því sem leið á daginn fór þó kunnuleg tilfinning að gera vart við sig á ný. Á Páskadag væru allar búðir lokaðar á ný. Þannig að við urðum að nýta laugardaginn vel í að versla það sem gæti mögulega, hugsanlega og fræðilega vantað á Páskadag. Guð forði mér frá því að eyðileggja páskana fyrir fjölskyldunni, sem væri víst að myndi gerast ef eitthvað skyldi nú vanta. Ég dreif manninn minn og börn út í búð á laugardaginn og við versluðum. Minn heittelskaði var nú ekki alveg viss um hvað það væri sem vantaði svona bráðnauðsynlega því hann, alveg eins og ég, hafði opnað ísskápinn og alla skápa eldhússins og séð ekkert nema mat! Ég var svo sem ekki viss heldur hvað það var, nóg var til af mjólkinni, yfirflæði var af páskaeggjum og páskasteikin var löngu komin í marineringu. Eitthvað var það nú samt sem mig vantaði!

Páskadagur leið svo ljúfur og góður, án alls stress því allar verslanir eru jú opnar á annan í páskum. Sem og alla daga þá vikuna. Við fjölskyldan vorum nú samt að koma úr verslunarferð. Minn heittelskaði sá um að ganga frá matvörunum og var rétt í þessu að spyrja mig hvað ég ætlaði að gera við allar þessar gúrkur? Og hvort ég hafi ekki áttað mig á því að við ættum meira en nóg af gosi – við sem erum hætt að drekka gos. Þegar hann spurði mig svo síðan hvenær ég fór að borða rækjur þá féllust mér hendur. Síðan spurði hann mig hvað ég ætlaði eiginlega að hafa í matinn og við ákváðum að það væri bara best að fara á KFC. Er þetta heilbrigt?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.