Fáðu meira út úr morgunmatnum

Allir vita að mikilvægasta máltíð dagsins er morgunmaturinn. Hollur og góður morgunmatur leggur grunninn að góðum degi.

Við hér á Íslandi búum við þann veruleika að flesta morgna ársins er myrkur úti og það hvetur ekki beint til fótaferðar. Langflestir virðast líka hafa þann háttinn á að fara seint að sofa og seint á fætur. Um leið og maður vaknar tekur við morgunrútína sem felur í sér að koma sjálfum sér í viðunandi horf útlitslega ásamt því að koma börnum í skóla og/eða leikskóla. Allt á þetta að gerast á sem stystum tíma. Það þarf ekki að spyrja að því hvaða athöfn morgunsins það er sem fer forgörðum í stressinu. ,,Ég fæ mér bara eitthvað í vinnunni“. Hver hefur ekki hugsað þetta? Og hver hefur ekki svo lent í því að geta ekki fengið sér neitt í vinnunni?

Pönnukökur í morgunmat?
Ég veit ekki til þess að á einu einasta íslensku heimili sé gangurinn þannig að um sjöleytið sé móðirin búin að elda pönnukökur fyrir allt liðið ásamt því að koma yngstu börnunum í föt OG hafa sig til í leiðinni. Heimilisfaðirinn getur lesið blaðið í rólegheitum með heitt og gott kaffi og kannski jafnvel kíkir nágranninnn við í smá spjall. Síðan halda allir glaðir af stað í vinnu og skóla. Kannski er þetta svona í alvörunni í hinni stóru Ameríku eins og við fáum að kynnast á skjánum en ekki hér heima.

Chiafræ
Skipulag er lykillinn hér, nú eða að vakna aðeins fyrr. Fyrir nokkru kynntist ég hinum mögnuðu chiafræjum. Áður en þau komu til sögunnar samanstóð morgunmaturinn minn af hafragraut eða cheerios, ef hann var þá einhver. Með chiafræjunum byrja ég daginn með mettan maga og helst góð fram að hádegi. Það er svo einfalt að gera chiagraut nákvæmlega eftir manns eigin höfði. Fræin eru sjálf alveg bragðlaus en alveg stútfull af dásamlegri næringu. Það er hægt að bleyta fræin og geyma þau í vel lokuðu íláti í ísskápnum í allt að tvær vikur. Fræ og vatn og volá! Fræin verða að nokkurs konar geli sem lítur ekkert sérstaklega girnilega út en er samt gott.

Uppáhalds chiamorgunmaturinn minn er chia, epli og kanilsykur. Já, ég set sykur en ég næ að sannfæra sjálfa mig um að það sé allt í lagi ef ég nota nýjasta tískufyrirbrigðið; pálmasykur. Hann er alveg rosalega góður og allir helstu heilsumatargúrúar vilja meina að hann sé ekki eins óhollur og venjulegur sykur. Mér er reyndar alveg sama um það, hann er góður á bragðið.

Mér finnst líka gott að blanda gelfræjunum útí hafragrautinn eða setja slettu af þeim með í sheikinn minn. Chiafræ, hrein jógúrt og mangóbitar eru líka dásamleg blanda. Auðvitað tekur tíma að skera mangóið og eins og ég sagði, þá er tíminn oft af skornum skammti á morgnanna. Mangó geymist vel, niðurskorið í vel lokuðu íláti í ísskápnum og þar með er það vandamál leyst.

Ávextir í skál
Þegar ég vil gera extra vel við mig í morgunmat og ég hef allan heimsins tíma þá fæ ég mér stútfulla skál af niðurskornum ávöxtum, slet væna slettu af grískri jógúrt (AB mjólk eða hrein jógúrt henta alveg jafn vel) og strái múslí yfir (hreint haframjöl er líka gott ef múslí er ekki til) og svo síróp! Já takk! Mér áskotnaðist einu sinni krukka af heimatilbúnu heslihnetusírópi og það er hreinn unaður að setja það ofan á allt gumsið.

Lúxushafragrautur
Ég hef þó ekki alveg sagt skilið við hafragrautinn góða. Haframjöl, salt og vatn; alltaf best. Lúxusútgáfan mín af hafragraut er venjulegur grautur hrærður með hörfræolíu þegar hann er tilbúinn. Ég mauka frosin jarðaber í örbylgjunni og set grautinn ofan á. Smá slettu af hreinu jógúrti eða AB mjólk á toppinn og ég er góð. Prófið, þetta er himneskt!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.