Páskakökur

Hví ekki að gleðja sinn innri páskaunga með páskakökum?

Hér er hugmynd sem hentar fyrir alla í fjölskyldunni til þess að gefa sköpunargleðinni lausan tauminn.
Hentar vel fyrir:
fólk sem vill skemmta sér…
fólk sem vill óvenjulegt páskaskraut
fólk sem vill skemmta börnunum sínum…
fólk sem vill slá í gegn í páskaboðinu…
fólk sem vantar verkefni…
fólk sem vill stuðla að gleði og hamingju…
fólk sem er litaglatt…
fólk sem vill verða litaglatt
fólk sem borðar kökur…
og jafnvel fólkið sem hafði ekki tíma til að skreyta piparkökur fyrir jólin…

Til að hefjast handa er mikilvægt að hafa í huga að það er ekkert sem stöðvar mann nema skortur á ímyndunarafli, og jafnvel ekki það, þar sem hugmyndir má finna í á hverju strái á veraldarvefnum.
Í fyrsta lagi þarf maður að velja sér uppskrift. Þeir sem eru hrifnir af piparkökum, geta kannski fengið piparkökuuppskrift hjá mömmu. Aðrir vilja kannski prófa eitthvað nýtt og þá er úr ýmsu að velja. Þó þarf að hafa í huga að sú kökuuppskrift sem verður fyrir valinu sé hentug til þess að fletja út og skera úr kökur, og ennfremur að kökurnar breyti ekki mikið um lögun við bakstur.

Sjá til dæmis hér eða hér.

Páskakökur
1 bolli mjúkt smjör
3 bollar hveiti
1 tsk salt
½ tsk matarsódi
½ tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
2 egg
1 bolli sykur

Aðferð
Þeytið eggin, blandið sykrinum út í. Bætið við vanilludropum og hrærið. Blandið þurrefnum saman, og bætið loks eggjablöndunni við og hrærið með sleif. Gott er að geyma deigið í ísskáp í 45 mínútur, eða jafnvel yfir nótt.

Deigið er flatt út, u.þ.b. 5 mm þykkt, og skornar út kökur eftir smekk. Ef engin páskamót eru til staðar á heimilinu má nota glas á hvolfi til þess að gera hringi, sem síðan eru mótaðir til eins og egg. Einnig má ef til vill nýta jólasmákökuformin og aðlaga þau að vild.

Sjálfsagt er að gera kökur við hæfi fyrir alla fjölskyldumeðlimi, t.d. hauskúpu fyrir unglinga með mótþróaröskun!

Bakað við 175°C í 7-10 mínútur, eða þar til kökurnar eru aðeins byrjaðar að brúnast á köntunum.
Kökunum er leyft að kólna og eru að því loknu tilbúnar til skreytingar.

Glassúr
Til að gera hefðbundinn glassúr er ágætt að byrja með 300 gr flórsykur, og bæta smátt og smátt við örlitlu sjóðandi heitu vatni. Ef óskað er má bragðbæta eftir smekk, t.d. með vanilludropum eða vanillusykri, möndludropum, rommdropum eða eftir smekk.

Þegar glassúrinn er hæfilega þykkur, ekki það þykkur að hann stífni um leið, en ekki svo blautur að hann leki út um allt, er gott að skipta glassúrnum upp í nokkrar litlar skálar, eftir því hversu marga liti maður ætlar að nota, og blanda svo matarlit við. Heimilisgyðjur sem iðnar eru við piparkökugerð og sykurmassagerð eiga ef til vill matarliti á lager, en þá er annars auðvelt að nálgast í næstu verslun eða vefverslun.

Fyrir þá sem vilja náttúrulegri aðferðir, er hægt að búa til sína eigin liti. Til dæmis gefa nokkrir dropar af rauðrófusafa bleikan lit. Gera má bláan úr bláberjum (merjið og síið safann frá). Blanda af þessum tveimur gefur fjólubláan lit. Túrmerik gefur gulan lit. Loks má stappa avacado, og blanda svo vel við glassúrinn.

Við skreytingar er t.d. ágætt að nota litla skeið og tannstöngla við smáatriðin.
Það er líka gaman að nota annað kökuskraut með eftir smekk, enda til siðs að páskakökur séu sem skrautlegastar.

Þá er bara að hefjast handa!

Comments are closed.