Hvenær varð ég svona?

Með augnskugga, fallegt hálsmen, rautt naglalakk og nokkra flotta hringa. Í sjúklega flottum gallabuxum, stígvélum með töff tösku. Sítt slegið hárið, í ljósri siffon blússu, alveg blettalausri og brúngylltri mjúkri peysu yfir. Sé glitta í fallegan blúndubrjóstarhaldara undir. Brún og sæt með rjóðar kinnar.
Hún fer á fjórar fætur og treður sér hálfri inn í ruslaskápinn minn. Dillar aðeins rassinum, því það er jú alveg nauðsynlegt þegar maður athugar leka úr eldhúsvöskum.

Glittir ekki í fallegan svartan blúndustreng.

Við stöndum bæði fyrir aftan hana með galopinn munn og augu og hugsanlega slefum við bæði yfir þessum djúsí rassi sem dillar sér í blúndubrók fyrir framan okkur.

Eftir smá spjall fylgjum við henni til dyra og kveðjum.
Horfum á hvort annað. Löng þögn.
Erum bæði að hugsa það sama; hvernig urðum við svona??

Hvað er langt síðan ég….

….gat málað mig á hverjum degi? Nú þríf ég maskarann bara annan hvern dag. Sá vatnsheldi verður að duga tvo daga í röð, hef ekki tíma í annað.
….gat verið í blettalausum fötum?
….var í samstæðum nærfötum?
….var með fallegt naglalakk sem flagnaði ekki af í næstu baðferð/bleyjuskiptum/uppvaski eða klórþvotti?
….var ekki með hafragraut í hárinu?
….gat keypt mér flotta skó?
…fór í ljós, setti brúnkukrem eða gerði EITTHVAÐ fyrir mig?

Og síðast en ekki síst, hvað er langt síðan ég var mjó? Í flottum gallabuxum? Og sýndi flottan rassinn minn??

Ég leit í spegil og sá eftirfarandi:

Albínói klæddur í allt of þröngan gráan götóttan druslubol svo ég leit út eins og sláturkeppur. Götóttar hafragrautarleggings, táfýlusokkar, maskarakorn niður á kinnar, varaþurrkur, sorgarrendur, svitafýla og hvítlauksandfýla. Var búin að losa brjóstarhaldarann fyrir löngu svo ég leit út fyrir að vera fjögurra brjósta geimvera.

Ekkert púður, enginn kinnalitur, leit út eins og ég væri með 40 stiga hita og gullfoss & geysi.
Svo til að toppa allt var ég með einhvern fjanda milli tannanna og tók ekki eftir því fyrr en klukkutíma eftir að ég kvaddi.
Ekki var unnustinn skárri, hann var ekki einu sinni í nærbuxum því hann setur alltaf í þvottavél og tekur ekki úr henni.

Þessi kona var leigusalinn minn … mjög næs stelpa. Var að hitta hana í fyrsta skipti og hún kom að hitta okkur og skoða íbúðina án þess að hringja á undan sér.

Við hlógum bara að þessu, skiljum ekki hvað kom fyrir okkur eiginlega!

Kysstumst, ég fékk klíp í rassinn, hann keyrði í ræktina á stuðaralausa skítuga ljóta bílnum okkar og hún keyrði í burtu á Range Rover jeppa … Já bless!

Comments are closed.