Nú nálgast páskarnir á ógnarhraða og jólin nýbúin. Hillur verslananna eru stútfullar af nammifylltum súkkulaðieggjum sem gera manni það nánast ómögulegt að fara með barnið sitt í verslunarferð. Ég man hvað mér þótti páskaeggin spennandi þegar ég var lítil þannig að ég skil alveg gleðina og tilhlökkunina sem skín úr augum barnsins míns þegar það sér mannhæðarháu rekkana af páskaeggjum.
Þegar ég var lítil stóð valið á milli framleiðanda eggjanna. Sumar búðir buðu bara upp á einn framleiðanda og þar með var búið að velja fyrir mann. Í mínum huga er aðeins einn framleiðandi til og einu sinni nægði mér að velja hvort ég vildi númer fjögur eða fimm. Svo komu strumparnir og þá fóru málin að flækjast. Í dag er ekki hlaupið að því að velja sér páskaegg. Framleiðendum hefur fjölgað og tegundum líka. Eggin eru til í allskonar stærðum og gerðum með allskonar aukabragði og fígúrum til að flækja málin. Viltu venjulegt súkkulaði eða dökkt? Hríssúkkulaði eða með lakkrís? Mjólkurlaust? Sykurlaust? Bragðlaust?
Allir eru að selja eggin og þau kosta sitt. Ekki nóg með að þau séu seld þá fylgja þau með í kaupunum líka á nánast öllu sem hægt er að kaupa. Þau fylgja með bílum, sjónvörpum, tölvum og þú getur unnið þau í leikjum á Facebook, á bingói, í happdrættum. Það er farið að vera sjálfsagður hlutur að fullorðinn einstaklingur eignist að minnsta kosti þrjú páskaegg. Foreldrar kaupa handa börnunum sínum, ömmur og afar gleðja lítil hjörtu með páskaeggjum og meira að segja frænkur og frændur líka. Allt flæðir í þessu dásamlega góða súkkulaði.
Skynsama ég segi að nú sé komið nóg! Eitt páskaegg fyrir alla fjölskylduna og það er alveg nóg. Við höfum ekki gott af þessu og krakkarnir eru svo litlir að þeir skilja þetta varla hvort eð er. Nautnaseggurinn ég segir að ég ætli að kaupa mér karamelluegg og geyma það svo ég fái að borða það ein!