Tannheilsa barnanna okkar – hver hugsar um hana?

Þessa dagana er tannheilsa barna mikið í umræðunni. Tannheilsu íslenskra barna fer hrakandi og dæmin sem tekin eru í fjölmiðlum eru sláandi. Undirtónn nánast allrar umræðunnar beinist að blessuðum tannlæknunum. Það kostar að fara til tannlæknis, má þá draga þá ályktun að þeir séu orsökin fyrir lélegri tannheilsu? Nei aldeilis ekki. Það má ekki gleymast að ábyrgðin á tannumhirðu og –heilsu barnanna okkar liggur alfarið hjá okkur sjálfum. Erum við að sjá til þess að börnin okkar bursti tennurnar tvisvar á dag? Erum við að passa uppá sælgætisát og gosdrykkju? Erum við nógu meðvituð um að það er ekki bara sælgæti og gos sem skemmir tennur? Ert þú búin að kenna barninu þínu að nota tannþráð?

Vissir þú…

Vissir þú að það ert þú sem átt að bursta tennurnar í börnunum þínum til amk 10 ára aldurs? Ekki treysta á að þau geri það og ekki vera viss um að það sé á þeirra valdi að gera það vel. Vissir þú að þegar jaxlarnir spretta upp þá er kominn tími til að kynna barnið fyrir tannþræði? Tannþræðir eru ekki bara fyrir fullorðna. Það er ekki á ábyrgð tannlæknisins að kenna barninu að nota tannþráð, hvað þá að það sé hans ábyrgð að sjá til þess að tannþráður sé yfirhöfuð til á heimilinu. Vissir þú að það er gott fyrir börn sem eru með djúpar skorur í jöxlunum að nota munnskol? Vissir þú að það eru til sérstök munnskol fyrir börn? Fær barnið þitt tyggjó? Er það stútfullt af sykri eða er það tyggjó sem getur tekið þátt í að hreinsa tennurnar?

Það er mjög mikilvægt að fá barnið til að galopna munninn reglulega, einu sinni á dag jafnvel og grandskoða tennurnar. Er matur fastur í jöxlunum? Veistu hvaða fæða á það til að festast eins og lím í djúpar skorurnar? Rúsínur, kex og cocoa puffs eru á tannburstunarlista á mínu heimili. Þetta er ekki oft í boði en þegar það er, þá þarf að bursta fljótlega á eftir. Sykruðu súkkulaðikúlurnar, dulbúnar sem morgunmatur, eru sérstaklega slæmar og ég hef eytt ófáum mínútunum í að hreinsa klessurnar úr tönnum barnsins. Brjóstsykur og sleikjó eru alveg sérstaklega slæmir fyrir tannheilsu, sérðu ekki fyrir þér hvernig sykurinn liggur lengi og vel upp við tennurnar?

Hvað geri ég sjálf?

Ég hef alla tíð reynt að passa upp á tennur barnanna minna. Ég sjálf er ekki með góða tannheilsu, það var enginn sem passaði uppá það neitt sérstaklega að ég burstaði kvölds og morgna. Ég fékk líka sælgæti nokkrum sinnum í viku þó ég fengi nánast aldrei gos. Það eru líka ófáir þúsundkarlarnir sem hafa farið í tannviðgerðir hjá mér. Ef barnið mitt sýnir mótþróa við tannburstun, þá opna ég ginið! Hvað er betra en að sýna barninu svart á hvítu hvað það getur gert tönnunum ef ekki er hugsað vel um þær? Ég bursta líka tennurnar sjálf með barninu og þegar ég læt það nota tannþráð þá geri ég það líka. Þau læra það sem fyrir þeim er haft!
Ég er ekki heilög móðir. Barnið mitt fær sælgæti og það fær líka gos ef það er á boðstólnum. Nammidagar eru þó bara einu sinni í viku og undanfarið hafa nammipeningarnir farið í baukinn því barnið er að safna sér fyrir leikfangi. Ef það er gos og barnið biður um það, þá fær það gos en ávallt fylgir setningin ,,en þú veist að þetta skemmir tennurnar“ með. Það virkar því í ófá skipti hefur barnið afþakkað gos og beðið um vatn í staðinn. Barnið er þó ekki heilagt heldur, því finnst sælgæti og gos vera ótrúlega gott á bragðið.

Tannbursti á 300 krónur í næstu búð.

Það kostar mikinn pening að fara til tannlæknis. Hafðu þó í huga að það kostar töluvert minna að fara í skoðun og tannhreinsun en í viðgerð! Þetta er eins og með bílinn, reglulegar skoðanir og gott viðhalda halda kostnaðinum niðri.

Vissulega er það súrt að börn í nágrannalöndunum fá ókeypis tannlæknaþjónustu. Það er undarleg hugsun að tennurnar fylgi ekki líkamanum því almennt er mjög vel hugsað um börn á Íslandi, það er til dæmis ókeypis að fara með barn til læknis á heilsugæslustöð. Það er ekki þannig alls staðar í heiminum. Hvað sem því líður þá er ekki hægt að kenna stjórnvöldum og tannlæknum um tannheilsu barnanna okkar. Þetta á ekki að snúast um peninga! Tannbursti kostar 300 krónur og hann á að duga í þrjá mánuði. Það gera 1200 krónur á ári. Ef það eru ekki til peningar til að fara með barnið til tannlæknis þá eru ekki til peningar heldur til að kaupa sælgæti og gos. Þetta er spurning um forgangsröðun og hreinlega vilja þinn til að hugsa um tennurnar í börnunum þínum!

Comments are closed.