Stóra smákakan

Big cookie eða stóra smákakan er algjörlega uppáhalds í öllum mínum vinkvennahópum og umtöluð í hvert skipti sem hún er borin fram. Ég ákvað að deila gleðinni með ykkur hinum! Gjörið svo vel!

Fyrir nokkru síðan áskotnaðist mér uppskrift að svo skotheldri köku að nánast engin önnur kemst með tærnar þar sem hún hefur hælana. Þetta er kaka sem á alltaf vel við og hefur verið borin fram í afmælisveislum, erfidrykkju, saumaklúbbum, ættarmótum og svo mætti lengi telja. Kakan er líka ljómandi góð sem föstudagssnarl eða til að baka um helgar eða á helgidögum! Það tekur líka stuttan tíma að skella í eina slíka sem skemmir ekki fyrir þegar þú átt von á gestum! Annar kostur við kökuna er að það má leika sér að uppskriftinni og breyta innihaldinu án mikillar fyrirhafnar og eftir smekk hvers og eins. Núna reikna ég með að allir séu komnir fremst á stólinn sinn og geti ekki beðið eftir uppskriftinni og því ætla ég ekki að halda ykkur spenntum lengur! Það eina sem reynist stundum þrautin þyngri er að eiga mjúkt smjör – það er nefnilega algjörlega krúsíal atriði!

Silkimjúkt smjör

Takið 150 grömm af silkimjúku smjöri, bætið bolla af púðursykri út í og hálfum bolla af sykri setjið í skál og hrærið vel saman. Tveimur eggjum er síðan skellt út í, einu í einu og hrært vel á milli. Að þessu loknu smellið þið 2 bollum og 2 matskeiðum betur af hveiti saman við, 1 teskeið matarsóda, hálfri af salti, 1,5 af vanilludropum og blandið saman við – þó er ekki gott að þeyta þetta saman með handþeytara þar sem kakan rennur meira til og missir dálítið sjarmann (af fenginni reynslu).

Syndsamlega gott súkkulaði

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum, það sem gerir þessa köku svo hrikalega góða og það sem nýjustu kannanir segja að sé ALGJÖRLEGA nauðsynlegt fyrir heilann og heilsuna – SÚKKULAÐIÐ!

1,5 bollar af suðusúkkulaði er í upprunalegu uppskriftinni sem samsvarar ca. 3 plötum af suðusúkkulaði. Þær eru skornar í grófa bita og skellt út í. Ef þið viljið krydda þetta aðeins meira og smella nokkrum kaloríum út í aukalega er afskaplega skemmtilegt að setja smá af súkkulaði af eigin vali með. Fjögur stykki af mars-súkkulaði gera MJÖG mikið fyrir kökuna, toblerone er líka að gera góða hluti sem og hvítt súkkulaði. Ég hef líka heyrt að daim, snickers, sykurpúðar og annað góðgæti hafa ratað út í deigið og get vel ímyndað mér að það sé algjört lostæti. Ég er hins vegar oft það vanaföst að ég skelli bara gamla góða marsinu við og smakka deigið svo örlítið til…

Dásemdin er síðan bökuð í 20-25 mínútur við 180°

Fyrir þá sem eru eins og ég set ég uppskriftina í einfaldara formi hér fyrir neðan þar sem þeir sem hafa athyglisbrest gætu misst af mikilvægum atriðum í textanum! Myndin er svo bara til að kvelja ykkur enn meira 😉

 

Njótið!


Innihald og efnistök

150 g mjúkt smjör

1 bolli púðursykur

0,5 bollar sykur

2 egg

2 bollar og 2 msk hveiti

1 tsk matarsódi

0,5 tsk salt

1,5 tsk vanilludropdar

1,5 bollar súkkulaði

4 stk. Mars súkkulaði eða annað að eigin vali.

 

 

 

 

 

 

Comments are closed.