Ég gerði afdrifarík mistök þegar ég fór að búa með unnusta mínum fyrir hartnær 10 árum síðan. Við vorum bæði ung og að flytja að heiman í fyrsta sinn. Hvorugt okkar þótt sérstaklega heimilislegt og því voru símtöl til mömmu ansi tíð á fyrstu vikum og mánuðum. Það að sjóða kartöflur, hrísgrjón, fisk og elda kjúkling var nokkuð sem hvorugt okkar kunni en mér tókst þó að læra eftir nokkur símtöl við elsku mömmu sem allt veit og hækkaði jafnvel enn meira á aðdáunarlistanum mínum.
Námskeið í samningatækni?
Á þessum árum vorum við bæði í námi og bjuggum á stúdentagörðum. Ég var í námi sem fólst mikið til í því að lesa og innihélt fáa sem enga dæmatíma eða verklega tíma. Unnustinn var hins vegar lengur í skólanum og í mikilli mætingaskyldu og hópavinnu. Þetta og það að hann var meira aflögufær í peningamálum varð til þess að ég sá nánast eingöngu um heimilisstörf og innkaup. Eftir á að hyggja er þetta einn versti samningur sem ég hef gert þar sem hann vandist því frá upphafi að ég sæi um þetta og því þykir hann ekki með myndarlegri mönnum þegar kemur að heimilisstörfum enn þann dag í dag.
Mismunandi skítastuðull
Ef það er eitthvað sem ég gæti ráðlagt ungum stúlkum í dag sem eru að hefja sambúð er að hafa jafnréttið í huga og kenna þeim frá byrjun að við erum ekki að taka við af mæðrum þeirra! Þar kemur reyndar annar partur af vandamálinum mínum – mæður okkar eru eins og svart og hvítt þegar kemur að eldamennsku og þrifum. Móðir mín er afskaplega góður kokkur, flink að baka og sérdeilis þrifin. Hún er týpan sem er nánast með ryknet á lofti til að veiða þessi gráu áður en þau lenda. Tengdamóðir mín tilvonandi er hins vegar afleitur kokkur, gæti ekki bakað þó líf hennar lægi við og er álíka þrifin og svín. Af þessum sökum er skítastuðullinn okkar, eins og ég kýs að kalla hann, ekki nærri því sá sami. Mér finnst allt vera í drasli þegar honum finnst vera hreint og því er ég yfirleitt fyrri til að bregðast við. Ég hef þó áorkað því á undanförnum áratug að breyta þessum stuðli hans svo að hann er nær mínum og því veit ég að honum líður best þegar það er hreint og fínt í kringum hann.
Að tala saman með Excel
Ég gat endalaust pirrað mig á því að hann hreyfði hvorki legg né lið og sæi ekki ALLT þetta drasl og eyddi því dýrmætum tíma í fýlu og pirring þangað til að ég ákvað að nálgast hann á annan hátt. Minn margumræddi betri helmingur er týpískur raungreinamaður sem lifir í excel og vill helst að samskiptin okkar fari fram í því ágæta forriti. Ég fæ reglulega pósta með útreikningum á hinu og þessu þar sem flóknari reglum en ég gæti nokkurn tímann skilið er beitt til að fá voða aðgengilegar upplýsingar. Þetta nýtti ég mér í haust þegar ég setti heimilisverkin upp í excelformi og hengdi upp á ísskáp. Núna veit þessi elska hvenær á að gera hvað, hvað er eftir og hvað er búið. Þetta hefur svo sannarlega breytt heimilislífinu – og verkunum til hins betra þar sem við tökum bæði þátt. Um leið og börnin fá aukinn þroska stefni ég að því að setja þau inn í kerfið og jafnvel beita einhvers konar umbun til að hvetja þau áfram!
Þessi grein mín er því til að hvetja þær sem hafa nýbyrjað í sambúð eða eru að hefja slíka til að koma sér strax upp einhverju kerfi til að allir séu meðvitaðir um það sem þarf að gera og taki virkan þátt svo að þið lendið ekki í sömu vandræðum og ég!