Sunnudagar eru nammidagar á mínu heimili. Ég forðast það að fá mér nammi yfir höfuð þar sem ég er forfallinn nammigrís og myndi eflaust detta í‘ða eftir einn mola. Því fæ ég mér frekar gott kaffi á sunnudögum. Ég fór stundum á kaffihús og splæsti mér í rándýran latte með sírópi en eftir að ég uppgötvaði þessa snilld þá langar mig bara meira í kaffi heima hjá mér!
Kanillatte er ósköp einfaldur í framkvæmd og þú þarft ekki að eiga einhverja „fancy“ kaffivél til að geta gert hann.
Ég byrja á því að hella upp á kaffi og á meðan set ég 2-3 tsk af kanilsykri í bollann, fer bara eftir hversu sætt þú vilt að kaffið þitt sé. Svo helli ég kaffinu saman við og hræri kaffið og sykurinn saman.
Svo flóa ég mjólkina, og aftur segi ég að þú þarft enga flotta vél í það. Þú getur þess vegna flóað hana í potti, nú eða keypt svona mjólkurþeytara, þeir fást fyrir lítið (sá m.a.s einn hræódýran í Tiger um daginn).
Svo helli ég mjólkinni saman við, best er að reyna að hella fyrst bara mjólk og láta froðuna koma ofan á.
Njótið!