Kóriander, mangó, rauðlaukur og gúrka. Hvað er hægt að gera úr því?

Þessi fjögur meginhráefni gera dásamlega hráfæðissúpu sem er borin fram ísköld með grófu sjávarsalti og sítrónuólífuolíu. Það er líka hægt að gera dýrindis mangósalsa úr þessu og salsað sjálft er svo hægt að bera fram á marga vegu eða matreiða áfram. Súpuuppskriftina fann ég síðla kvölds á einum af mínum löngu internetrúntum. Hún Natasha hjá www.rawradianthealth.com var svo almennilega að leyfa mér að deila henni með ykkur.

Í salsað fara þessi hráefni ásamt tómötum, limesafa og jafnvel smá ferskum chillipipar, í matvinnsluvél og hún er látin vinna þangað til grófleiki salsans sem þú óskar eftir næst. Ég gerði þetta salsa til hafa með kjúklingataco og útkoman var glæsileg. Ég átti afgangskjúkling í ísskápnum sem ég kryddaði með smá chillipipar, papriku og hvítlaukssalti. Kjúklingurinn er svo steiktur á pönnu til að hjálpa kryddunum að blandast saman og ná fram hámarksbragði. Í tacoskelina raðaði ég fersku salati, kjúklingnum, mangósalsanu og mozzarellaosti. Þetta bar ég fram með nachos og hefðbundnu salsa og ostasósu.

Súpan er þó mun vinsælli á mínu heimili en salsað og því freistast ég oftar til þess að hræra í hana en salsað. Skelltu öllu hráefninu í blandara (má nota matvinnsluvél en mér finnst blandarinn ná þessu betur) ásamt lime safa, um það bil einu vatnsglasi og jafnvel papaya og blandaðu þessu vel saman. Það er svo gott að setja örlítið af sjávarsalt og góða ólífuolíu útá súpuna áður en þú hefst handa við að njóta hennar.

Comments are closed.