Jógúrtkökur jómfrúarinnar

Þar sem við á heimilinu eru sérlegir sælkerar og súkkulaðisnúðar bakar húsfrúin reglulega sætabrauð og reynir endrum og eins að gera það hollara. Í þessu tilfelli dettur mér það ekki í hug þar sem þessar kökur sem kallast jógúrtkökur hér á heimilinu eru bara of góðar svona dísætar og fullar af súkkulaði. Minnsti grísinn fær svo súkkulaðilausar kökur og brosir út að eyrum. Það má pottþétt minnka sykurinn og líklega er óþarfi að setja tvöfalt magn af súkkulaði! Innihaldið er eftirfarandi:

2,5 bollar sykur

300 g mjúkt smjör

4,5 bollar hveiti

1 dós kaffi – eða hnetu- og karmellujógúrt

6 egg

1 tsk matarsódi

1 tsk lyftiduft

vanilludropar

200-400 grömm súkkulaði

Sykur, smjör og egg er hrært í spað. Hinu gumsinu bætt saman við og þar sem húsfrúnni þykja ófullnægjandi uppskriftir óþolandi má bæta við að ,,dashinn“ af vanilludropum gæti flokkast sem tvær teskeiðar 😉 Súkkulaðinu er bætt síðast út í og eftir áralanga smökkun hefur húsfrúin komist að því að súkkulaðidropar eru að gera ákaflega gott mót og gera góðar kökur enn betri. Þá losnar maður líka við umstangið og subbuskapinn sem fylgir því að brytja niður súkkulaði og sparar uppvaskið eða plássið í uppþvottavélinni um leið!

Deigið er sett í bréfform með barnaskeið og bakað við 190-200° í 10 mínútur.

Þessi uppskrift er mjög stór og er því afar hentug í barnaafmæli eða í frystinn.

Jógúrtkökur jómfrúarinnar

Verði ykkur að góðu

Comments are closed.