Það er að ganga pest!

Það er að ganga pest! Reyndar er það ekkert nýtt, það er alltaf að ganga pest. Pestir ef ég á að vera nákvæm. Pestarnar ganga hring eftir hring allt árið um kring en af augljósum ástæðum er meira um þær þegar skólar og leikskólar eru í fullu fjöri með mikilli starfsemi. Barnið nær sér í nokkrar veirur í leikskólanum og kemur með heim. Barnið er örlátt og deilir veirunum með systkinum sínum sem bera þær áfram í skólann. Og svo koll af kolli.

Það er mikil vinna að vera með ælandi barn á heimilinu, hvað þá tvö eða fleiri. Mun meiri vinna en þegar t.d. kvefpestarnar láta á sér kræla. Áður en þú veist af ertu búin að baða barnið þrisvar á síðustu klukkutímum en þig sjálfa aldrei því það er enginn tími og veika barnið vill bara mömmufang. Þrátt fyrir böð og hrein föt á barnið hættir þú aldrei að finna ælulyktina og fattar ekki fyrr en þú nærð sjálf að skríða upp í rúm seint um kvöld að það er af því að einhvern veginn tókst barninu að klína ælu í hnakkann á þér.

Allar fötur og balar heimilisins eru yfirfullar af ælufötum í bleyti því þvottavélin nær ekki að anna eftirspurn. Rúmföt og handklæði eru á yfirsnúningi í þeytivindunni. Í aðstæðum sem þessum bölvar þú því útí hið óendanlega að hafa látið undan þínum ektamanni í baráttunni um hvort ætti að kaupa álfelgur á bílinn eða þurrkara! Stofan er undirlögð af þvottagrindum stútfullum af þvotti. Það tekur því ekki að ganga frá þvottinum því hann er tekinn jafnóðum af grindunum, jafnvel enn rakur og skellt í notkun. Það líður ekki á löngu þar til sama flíkin er komin á fullt í þeytivindunni á ný.

Þegar barnið nær loksins að sofna og þú sérð fram á smá pásu heyrist hið ótrúlega úr herbergi eldra barnsins. Það er byrjað líka! Þá þýðir fátt annað en að draga fram síðustu handklæðin sem eftir eru hrein og þurr og hefjast handa.

Börn eru fljót að þorna upp. Það er mikill misskilningur hjá fólki að það þurfi að hafa áhyggjur af því að það gangi illa að koma mat ofan í börn með magakveisu. Það er vökvinn sem skiptir máli númer eitt, tvö og þrjú! Ef þú manst ekki hvenær barnið pissaði síðast, þá gæti verið kominn tími til að fara með það til læknis en á meðan barn með ælupest drekkur og pissar þá er ekkert annað hægt að gera en að leyfa pestinni að hafa sinn gang. Þetta tekur tíma, jafnvel einhverja daga. Þolinmæði þrautir vinnur allar!

Það er líka annað sem vert er að hafa í huga þegar barnið þitt hefur eytt síðustu dögum í að æla lifur og lungum og ekkert gengur að koma vökva ofan í það. Það sem barnið vill, fær barnið! Nú er ekki tíminn til að hugsa um manneldismarkið, lífræna safa eða hvað nágranninn myndi hugsa ef hann kæmist að því hvað barnið fær að drekka. Ef það heldur niðri kóki, þá skaltu gefa því kók! Og ekki hafa það sykurlaust! Sykurlausir drykkir eiga ekki við í ælupestum. Hafðu þó í huga að ef barnið er viljugt til að drekka vatn, gatorate, svala og aðra drykki þá er engin ástæða til að bjóða því gos.

Ef barnið fæst til þess að borða á milli uppkasta skaltu halda þig við frekar hlutlausan, bragð- og lyktarlítinn mat. Ekki bjóða barninu að borða eða drekka um leið og það klárar úr maganum á stofugólfið. Það býður bara uppá enn meiri uppköst og þrif fyrir þig eftir nokkrar mínútur. Gefðu þessu tíma. Ristað brauð með smjöri og epli eru ágætis kostur fyrir órólega maga. Ekki gleyma frostpinnum! Þeir hafa þrjá eiginleika sem eru góðir í ælupestarfæði; kaldir, eru vökvi og innihalda sykur! Þegar maður borðar lítið sem ekkert helst blóðsykurinn í lægri kantinum og þá getur skapast vítahringur því þá verður maður lystarlaus. Ofan í lystarleysið sem fylgir pestinni. Þess vegna segi ég enn og aftur, gefðu barninu fyrst og fremst vökva með einhverjum sykri í! Gatorade og powerade eru líka góðir drykkir í svona aðstæðum.

Áður en þú veist af hætta börnin að æla og þvottavélin nær að hvíla sig á milli átaka. Svo hringir síminn! Ektamaðurinn er á heimleið með ælupest og þú veist að þá fyrst byrjar vinnan!

Comments are closed.