Núna er rétti tíminn til þess að gleðja líkama og sál, aðallega bragðlaukana þó og planta kryddjurtum. Hver vill ekki eiga fullan eldhúsglugga af girnilegu basil og kóríander sem nota má í eldamennskuna? Hvað þá fullt ker af ilmandi myntu og graslauk á svölunum eða í garðinum! Auk þess sem að fátt er betra en heimaræktaðar kryddjurtir í matargerð, eru flestar kryddjurtir meinhollar. Síðan má ekki gleyma því að það getur verið frábært fyrir börnin að fá að hjálpa til við að sá fræjum og fylgjast svo með afrakstrinum.
Til er fjöldi kryddtegunda og hér eru dæmi um nokkrar sem hafa reynst vel til ræktunar í íslenskum eldhúsgluggum.
-
Kóríander má rækta bæði inni og úti. Kóríander er frábær út í ýmsan mat, út á súpur o.fl.
-
Steinselja getur verið hvort heldur sem er úti eða inni.
-
Graslaukur vex vel í görðum og má einnig gjarnan vera í blómakerum á svölum. Graslaukur er meðal annars frábær út í kartöflusalat og túnfisksalat.
-
Basil er upplagt að rækta inni. Það þolir ekki að vera úti um íslenskar sumarnætur, en gjarnan má setja það út á daginn ef maður vill. Basil er til dæmis gott í pestó, með tómötum og mozzarella osti og í ýmsar uppskriftir.
-
Mynta vex nánast eins og arfi. Hún er fjölær og vex vel í íslenskum görðum, og getur einnig verið í blómakerum á svölum. Það er fátt betra en myntute úr ferskri myntu, svo ekki sé minnst á mojito! Mynta er einnig gott krydd í margar súpur og rétti.
-
Rósmarín er gott í matargerð og lyktar líka vel.
-
Dill er gott í matargerð. Sagan segir að orðið „dill“ sé af norrænum uppruna (að dilla) í merkingunni að róa, þar sem sagt er að seyði af dilli sé gott til þess að losna við vindverki.
Hvað þarf til:
-
Bakka, blómapotta eða hvers kyns ílát sem hentar aðstæðum á heimilinu. Fyrir litla græðlinga er mjög gott að kaupa sérstakan bakka með loki í blómaverslun, sérstaklega ætlaðan til slíks brúks. Það er þó á engan máta nauðsynlegt, og allt eins hægt að nota gamlar mjólkurfernur til að hafa í eldhúsglugganum.
-
Vikur og mold.
-
Fræ að eigin vali.
-
Umtalsverða ást og umhyggju. Eða frábært minni sem hjálpar þér að muna að vökva plönturnar eftir þörfum.
Áður en hafist er handa er best að vera viðbúin nokkrum sóðaskap, og ekki verra að hafa eitthvað undir, t.d. plastdúk og sumir gætu jafnvel viljað hafa hanska.
Best er að setja grófan vikur í botninn á blómapottinum eða því íláti sem hefur verið valið, síðan pottamold og sérstaka sáðmold sem efsta lag (ca 1-2 cm). Sáðmoldin er næringarsnauðari en pottamoldin, sem ku vera betra fyrir fræin. Næringarrík pottamoldin er aftur á móti betri þegar plönturnar eru komnar upp og byrjaðar að skjóta rótum. Með sum fræ kemur það þó ekki að sök þótt maður noti bara pottamoldina.
Moldinni er þrýst létt niður, og vökvuð lítillega. Síðan er fræjum stráð yfir moldina, og ágætt er að dreifa örlítilli mold yfir. Lítil fræ þurfa mjög þunnt yfirlag, en stærri fræ er gott að hafa á örlítið meira dýpi. Hafi maður ekki fjárfest í sérstökum bakka með loki, er gott að setja plastfilmu yfir pottinn og skella pottinum út í glugga. Þegar plönturnar láta á sér kræla er plastfilman fjarlægð. Best er að vökva lítið í einu, einu sinni til tvisvar á dag eða eftir þörfum.
Að sjálfsögðu er einnig upplagt að fá afleggjara ef maður fær færi á slíku. Mynta og graslaukur eru dæmi um tegundir sem vaxa gjarnan í görðum og mjög auðvelt er að setja afleggjara niður í garð eða í blómaker á svölum.
Gott að hafa í huga:
-
Hitastig: Góður hiti við spírun er um það bil 18-22°c, en hitastig við ræktun má vera umtalsvert lægra. Sumar plöntur þola vel að vera úti, en sumum tegundum hentar betur að vera inni.
-
Rakastig: Við spírun er gott að hafa mátulegan raka, og því setur maður plastfilmu yfir blómapottinn. Við ræktun þarf minni raka, en mjög gott er að vökva oft en lítið í einu og jafnvel ágætt að úða moldina með vatni.
-
Birtustig: fræ þurfa ekki sérstaklega á birtu að halda við spírun, en um leið og plönturnar eru komnar upp þarf að tryggja nægt ljós. Jafnvel má hafa sérstaka lampa ef aðgangur að sólarljósi er takmarkaður.
-
Staðsetning: Sólríkir gluggar eru bestir en það þarf sérstaklega að gæta að því að vökva vel, þegar sólin skín sem mest, til þess að tryggja að plönturnar skrælni ekki. Ef ætlunin er að láta fræ spíra og setja þau svo út í garð eða á svalir, þarf að herða plönturnar með því að kynna þær fyrir kuldanum smátt og smátt.
-
Þegar plöntur byrja að blómgast er ágætt að taka blómin af, ef markmiðið er að hámarka uppskeruna.
Með von um ilmandi eldhúsglugga og kryddlegin hjörtu.