Í nýrri rannsókn sem birt var 12. janúar 2012 heldur þvagfæralæknirinn Amichai Kilevsky því fram að hinn margrómaði G-blettur sé í raun ekki til. Niðurstaða hans er byggð á yfirferð 96 rannsókna sem gerðar voru á 60 ára tímabili. Kilevsky og vísindamenn hans tóku meðal annars vefsýni, notuðu sónartæki og skimuðu myndir en komust að þeirri niðurstuöðu að bletturinn rómaði sé ekki til. Hann viðurkennir þó að niðurstöður hans séu ekki 100% öruggar.
En hvað er G-bletturinn?
Blettur þessi er nefndur eftir þýskum vísindamanni að nafni Ernst Gräfenberg. Árið 1950 taldi hann sig hafa fundið svæði, um það bil 2ja cm stórt í leggöngum kvenna sem væri sérstaklega viðkvæmt og veitti mikla örvun við snertingu. Bletturinn ætti að finnast á nokkurra cm dýpi (um það bil 3 cm djúpt) í leggöngum konu á framveggnum (kviðlægt). Þrátt fyrir að bletturinn sé nefndur eftir Gräfenberg hefur hann verið þekktur allt frá 11. öld í Indlandi.
Kilevsky segir í rannsókn sinni að flestar konur trúi á tilvist G-blettsins þó svo að margar konur hafi ekki enn getað fundið hann. Margir rannsakendur hafa leitað haldbærra sönnunargagna fyrir tilvist G-blettsins og við skoðun vefjasýna hafa oft fundist vísbendingar þess að fleiri taugaenda sé að finna á þessum sérstaka bletti en annarsstaðar í leggöngum kvenna. Hinsvegar lítur Kilevsy framhjá þessum rannsóknarniðurstöðum því hann og félagar hans hafa undir höndum vefjasýni sem sýna fram á annað.
Í rannsókn frá 2008 voru notuð sónartækni til að skoða vegg legganga í konum og í ljós kom að þær konur sem fengið hafa leggangafullnæginu virðist vera með þykkari leggangavegg en þær sem ekki hafa fengið fullnægingu við leggangaörvun.
Barri Komisaruk prófessor í Rutgers háskólanum í New Jersey, Bandaríkjunum, vill meina að G-bletturinn sé tískufyrirbrigði og heldur því fram að þeir sem segjast örvast við þrýsting á G-blætt gætu verið að finna til örvunar sem á sér stað þegar þrýst er á þvagrás og svokallaðan Skene kirtil sem svipar til blöðruhálskirtils karlmanna.
Við óformlega og óvísindalega rannsókn sem höfundur lagði fyrir, svöruðu 25 konur spurningum um G-blettinn. 11 konur af 25 (eða 44%) telja sig eða rekkjunaut hafa fundið G-blettinn sinn. 10 konur af 25 (eða 40%) voru ekki vissar um að hafa fundið hann en við nánar eftirgrennslan á svörum er líklegt að af þessum 10 konum sem sögðust óvissar hafa tvær kvennanna eða rekkjunautur þeirra í raun fundið hann. Og aðeins 5 konur af 25 (eða 20%) sögðust ekki hafa fundið hann.
Hvað sem vísindum líður skal taka það sem óyggjandi staðreynd að margar konur telja sig hafa fundið sinn G-blett á meðan aðrar kannast ekki við hann.
Bletturinn goðsagnakenndi ætti að vera á stærð við fimmkall og með örlítið öðruvísi áferð en restin af leggöngunum.
Við örvun þrútnar svæðið og verður meira áberandi. Tilfinning við örvun er sterk og yfirþyrmandi og margar konur líkja henni við það að þurfa að pissa. G-bletts örvun getur fylgt áköf fullnæging og sumar sprauta jafnvel út vökva við fullnægingu eftir örvun G-blettsins. Vökvinn er glær og mætti líkja við sæði (þó aðeins þynnra) og án sæðisfrumna. Vökvinn er glær og lyktarlaus og getur verið allt frá fáeinum dropum upp í nokkra millilítra.
Eins og áður segir eru margar konur sem ekki virðast hafa G-blett og á sama hátt eru ekki allar konur sem fundið hafa sinn G-blett færar um að sprauta út vökva við fullnægingu.
Þær sem ekki hafa fundið sinn G-blett ættu þó ekki að örvænta og halda að þær séu óeðlilegar á neinn hátt því að kynlífið gengur að sjálfsögðu út á svo margt fleira en bara örvun á blettinum. Einnig þurfa karlmenn ekki að hafa áhyggjur af því að ná ekki til blettsins þar sem hann liggur aðeins á um það bil 3 cm dýpi og því ættu öll typpi að vera fær um að örva hann, burtséð frá limastærð. Góðir grindarbotnsvöðvar hjálpað til við leit á G-blettinum og æfing þeirra getur auk þess fært nýjar víddir í samlífið, örvun og unað. Gott kynlíf snýst ekki bara um endastöðina sem margir kalla fullnægingu heldur svo miklu miklu meira. Nándin, virðingin, ástin, leikurinn og unaðurinn er svo margfalt mikilvægari.
Mestu máli skiptir að skemmta sér frekar í leit að örvuninni og við könnun á líkamanum en að einblína á endapunktinn eða punktinn sem kenndur er við G.
Heimildir:
http://www.huffingtonpost.com/2012/01/19/g-spot-does-not-exist_n_1215822.html
http://www.meyland.is/info/g-blettur
http://www.siggadogg.is/?p=21