Fokk
Samkvæmt nýjustu rannsóknum er erfið hreyfing á meðgöngu ekki skaðleg hinu ófædda barni. Nú fýkur sú afsökun út í veður og vind! Það er kannski eins gott að ég er hætt barneignum, ég náði þó allavega að eiga mín þrjú yndislegu börn og naut þess að þurfa ekki að hreyfa á mér litla fingur meðan á meðgöngunum stóð. Ég var jú ólétt og átti ekkert að vera að hreyfa mig að óþörfu; ef ólétt kona teygir sig yfir höfuð, t.d til að hengja upp á snúrur, þá vefst naflastrengurinn um hálsinn á ófædda barninu og allt það. Þetta vita allir.
Mér líkar ekki svona nýjar rannsóknir. Hvað ætla þau að koma með næst? Að kynlíf oftar en 2x í viku meðan á meðgöngu stendur sé kannski bara góð hugmynd? Að eitt Twix á dag komi víst ekki skapinu í lag? Að óléttar konur þurfi ekki að forðast G-strengi eins og heitan eldinn því hann veldur ekki fósturgöllum eftir allt saman? Já nei mér líkar þetta bara alls ekki.
Ég þarf að hafa ákveðnar mýtur sem ég hreinlega verð að trúa, og það sem meira er – sem eiginmaður minn verður að trúa.
Eins og að það sé fullkomnlega eðlilegt að borða á við þrjá meðan á blæðingum stendur og jafnvel líka tveimur vikum fyrir blæðingur og tveimum vikum eftir. Eiginmanni ber ekki einungis að umbera þetta heldur skal hann þetta elska.