Það þekkja flestir eirðarleysið sem heltekur mann á síðustu dögum veikindahrinu hjá börnunum okkar. Þau eru orðin hress en ekki enn nógu hress til að fara í skólann eða leikskóla. Sama eirðarleysið getur gert vart við sig um helgar þegar veðrið bíður ekki uppá mikla útiveru. Þegar búið er að lita, lesa, kubba, kitla, knúsa, perla út í hið óendanlega kemur að því að hvorki þú né barnið nennið að gera sama hlutinn aftur og aftur. Hvað er þá hægt að gera?
1. Ef þú átt brúnan gjafapappír, eða bara rúllu af brúnum pappír, þá er sniðugt að láta barnið leggjast á útdregna rúlluna og svo teiknar þú útlínur barnsins. Það getur verið fróðlegt að sjá hvernig barnið teiknar og litar sjálft sig. Þegar ,,barnið“ er tilbúið er um að gera að klippa það út og hengja upp á vegg! Þetta getur líka verið góð skemmtun fyrir þig, láttu barnið teikna þig og taktu þátt í fjörinu!
2. Búðu til grímur með barninu! Hvort sem þær eru úr pappa, festar saman með hefti eða límbandi, eða saumaðar saman úr gömlum efnisbútum, geta þær breytt heimilinu í leikhús á nokkrum mínútum. Ef þú átt slatta af efni sem má fara í grímubúningaleik þá er ekkert mál að búa til prinsa og prinessur, risaeðlur, krókódíla, fíla og fleiri fígúrur án þess að hafa sniðin á reiðum höndum.
3. Margir leikskólar safna auglýsingabæklingum og börnin skemmta sér vel við að klippa út það sem þeim finnst áhugavert og líma á blað. Það má gera það heima líka.
4. Bakaðu skúffuköku, hafðu hana þunna. Leyfðu barninu að taka þátt. Þegar kakan er tilbúin og hefur kólnað, skerið hana þá út með piparkökumótum og skreytið.
5. Hvernig væri að nýta tímann til þess að fara yfir barnaherbergið? Það er nauðsynlegt að grisja úr leikföngunum og fataskápnum reglulega. Ef það er eitthvað sem þið viljið geyma er tilvalið að geyma það í pappakassa sem barnið hefur skreytt. Það er hægt að fá ódýra pappakassa í IKEA sem er tilvalið að mála eða teikna á, jafnvel líma myndir á. Ef málning er notuð gæti verið sniðugt að setja bókaplast yfir hana svo hún smiti ekki frá sér á aðra kassa í geymslunni. Ef plastkassi er notaður er eins hægt að setja myndir innan í þá og þær skína í gegn 🙂